28.04.1926
Neðri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í D-deild Alþingistíðinda. (3338)

105. mál, kaup á jörðinni Hlíðarenda í Fljótshlíð

Flm. (Klemens Jónsson):

Greinargerðin fyrir þessari till. er að vísu mjög stutt, en í rauninni segir hún þó alt. Jörðin Hlíðarendi í Fljótshlíð er í útlöndum, einkum í Danmörku og Noregi, vafalaust langfrægasta og kunnasta jörð hjer á landi. Allir mentamenn þar hafa miklar mætur á Njálu og meta hana mest allra okkar fornsagna, og engin fornhetja er að minni vitund eins kunn og Gunnar. Marga mentamenn hefi jeg heyrt tala um það, að engum þeirra dáist þeir að eins og Gunnari. Menn dást að honum fyrir drengskap hans og hreysti. Skarphjeðin kunna þeir ekki að meta eins mikils og vjer gerum, og ekki Njál heldur. Það er líka staðreynd, að fáir útlendingar leggja leið sína út að Bergþórshvoli, en allir velja þeir Hlíðina, til þess að sjá heimkynni Gunnars og þá náttúruprýði, sem varð þess valdandi, að hann sneri aftur og beið bana fyrir, og jeg hefi heyrt um Norðmann einn, sem fór út til Íslands í því einu skyni að sjá Hlíðarenda.

Jeg kom að þessum bæ fyrir 20 árum, og voru híbýli þar þá mjög ljeleg. Nú er sagt, að þau sjeu skárri, en þó tæplega hýsandi margir menn, og alls ekki útlendingar. Þetta finst mjer, að ekki geti gengið vanvirðulaust, að okkar frægustu sögustaðir sjeu svo illa hýstir, að útlendingum ofbjóði. Þingvallanefndin hefir rannsakað s. l. sumar ýmsa sögustaði og þar á meðal Hlíðarenda, og er hún því frekar meðmælt, að jörðin verði keypt, jafnvel þótt hún þykist ekki geta ráðið til þess að sinni, vegna getuleysis sennilega, að jörðin verði keypt, hafandi það fyrir augum, að það er ekki nóg að kaupa jörðina, heldur verður að hýsa hana líka.

Okkur þm. Rang. hefir borist beiðni um að útvega hæfilegan byggingarstyrk til þess að hýsa með þessa jörð, og nú hefir í hv. Ed. verið samþ. 2000 kr. tillag til húsabyggingar á jörðinni, en þetta er ekki því til fyrirstöðu, að þessi till. verði samþ., því að það er tekið fram í nál., að svo framarlega sem þessi jörð verði keypt á sínum tíma, skuli þessi upphæð dregin frá kaupverðinu. Mjer þótti þessi upphæð, sem farið er fram á, 2500 kr., ekki einhlít. Mjer þótti styrkurinn alt of lítill, því að það er ekkert hægt að byggja fyrir þá upphæð. Þess vegna sendi jeg eigandanum símskeyti með fyrirspurn um það, hvort hann vildi selja jörðina og þá fyrir hve mikið. Þessi maður eigandi og ábúandi jarðarinnar, Árni Erlendsson, kom sjálfur hingað fyrir nokkrum dögum, og átti jeg tal við hann um þetta. Hann er fús til að selja jörðina fyrir 14000 krónur, en að mínu áliti er 12–14000 kr. hæfilegt verð fyrir hana. Fasteignabók sýnir, að hún hefir verið metin þannig, að landverðið er 3100 kr., en hús 700 krónur, alls 3800 krónur. Þingvallanefndin hefir getið þess í sínu áliti, að húsin sjeu mjög hrörleg, nema íbúðarhúsið, sem er nýsmíðað og varla fullgert enn. Þess vegna er jörðin miklu verðmeiri en eftir fasteignamatinu. Þessi till., sem jeg ber fram, fer aðeins fram á heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að kaupa jörðina, og hún ræður því alveg, hvort hún vill nota heimildina eða ekki, en ef till. verður samþykt, er það fremur aðhald fyrir stjórnina til þess að kaupa heldur en hitt. Um kaupverðið skal jeg bæta því við, að eigandinn hefir nýlega keypt hálflenduna fyrir 3000 kr., en það voru tækifæriskaup, því að hann keypti af bróður sínum. Jeg vil ekki neita því, að ef jörðin verður keypt á 12000 krónur, þá kunni eigandinn að græða eitthvað ofurlítið á þeim kaupum, og jeg sje ekkert á móti því, þó að hann græði ofurlítið. Hann ætlast sömuleiðis til að fá að halda lífstíðarábúð á jörðinni, og hann setti það líka sem skilyrði, en auðvitað er það, að því hærra sem verðið er, því hærra verður þá eftirgjaldið, svo að hallinn fyrir ríkissjóð ætti ekki að verða neinn. Þess er getið í áliti Þingvallanefndarinnar, að jörðin liggi sem stendur undir skemdum af Þverá, og jeg hefi getið þess í öðru máli hjer í deildinni, þar sem rætt var um Þverá, að margar jarðir í Fljótshlíð lægju undir skemdum af henni. Jeg spurði þá bræður, þegar þeir voru hjer á ferð, hvort skemdunum hjeldi áfram, og kváðu þeir nei við því. Þeir sögðu, að Þverá væri búin að skemma það, sem hægt væri, og eftir að till. kom fram hefi jeg átt tal um það við bónda einn úr Fljótshlíðinni, sem er fæddur þar og uppalinn, og sagði hann hið sama og þeir, að þar lægju engar skemdir fyrir nú sem stæði, og meira að segja, það væri kominn upp, beint á móti, fyrir handan ána, talsverður grasvöllur, sem heyrði undir Hlíðarenda. Þessa gat eigandinn ekki við mig, og þykir mjer það vottur um það, að hann hafi ekki viljað gylla jörðina um of fyrir mjer.

Jeg hefi heyrt því fleygt, eftir að till. kom fram, að þetta gæti orðið fordæmi og að fleiri gætu komið á eftir og boðið ríkinu gömul höfuðból til kaups. Jeg sje satt að segja ekkert á móti því, þó að ríkið eignaðist fleiri af þeim gömlu höfuðbólum, en jeg held, að menn þurfi ekki að óttast það. Mörg þeirra eru beneficia, t. a. m. Oddi, og mörg þeirra eru bændaeign, t. d. Reynistaður, Þingeyrar, Grund o. s. frv. Hygg jeg, að mörg þeirra liggi ekki laus fyrir og enda engin knýjandi nauðsyn til að kaupa þau, saman borið við þessa jörð. Jeg hefi ekki heldur heyrt þess getið, að menn hafi gert sjer ferðir til þess að skoða þau. Það eru aðeins tvær jarðir, tvö gömul hefðar- og höfuðból fornrar frægðar og menningar, sem komið gætu til mála við fljótt yfirlit. Það er Skálholt og Haukadalur. Það fyrra er hið forna biskupssetur um sjö alda skeið. Það var gefið til þess að vera ævarandi biskupssetur, og það var því hneyksli, er jörðin var á sínum tíma seld í „prívat“eigu. Þá jörð ætti ríkið að kaupa aftur og dubba upp hinn forna Skálholtsstað og byggja þar veglega kirkju og láta prestinn búa þar, en ekki á Torfastöðum.

Hefi jeg nú lokið máli mínu. Vænti jeg vinsamlegra undirtekta í deildinni, og verði till. samþ. hjer, vona jeg, að ríkisstjórnin noti þessa heimild, eftir því sem hún sjer fært.

Með því að þessi till. fer ekki fram á útgjöld að þessu sinni, virðist mjer ekki þörf á að vísa henni til nefndar, en jeg hefi hinsvegar ekkert á móti því, að málinu verði vísað til nefndar.