06.05.1926
Efri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í D-deild Alþingistíðinda. (3350)

112. mál, húsmæðraskóli að Hallormsstað

Atvinnumálaráðherra (MG) :

Hv. flm. segist hafa tekið til inntekta í þessu máli ummæli mín í dag um kvennaskólana. En hann má þá ekki leggja meira upp úr þeim en í þeim lá. Jeg tel miklu rjettara að hlynna að þeim skólum, sem fyrir eru, heldur en að setja nýja á stofn. Annars vil jeg um þessa till. segja það, að þó hún verði samþ., er ekki veitt neitt fje til umráða landsstjórninni. Það má búast við því, að konan, sem um er að ræða, telji sig gabbaða með till., ef ekkert má borga henni, því það er ómögulegt fyrir hana að svara þeim fyrirspurnum, sem gera þarf, án þess að leggja töluvert í kostnað. Frá þessu sjónarmiði gæti verið varhugavert að spyrja, ef ætlast væri til að fá bindandi svar. Annars finst mjer ekki viðkunnanlegt, að á eign ríkissjóðs sje bygt hús einstaks manns. Um þetta má ekki hafa nein undirmál við konuna, sem setur skólann á stofn. Vjer verðum að gera oss ljóst, að vjer getum ekki, sóma vors vegna, ef kona þessi reisir skólann að tilhlutun Alþingis, neitað um nægilegan styrk til skólans síðar, nema vjer kaupum húsið fyrir það verð, sem hún er skaðlaus af. Vjer verðum að gæta þess að gera henni ekki fjártjón.

Jeg skal í þessu sambandi minna á, að til eru lög um húsmæðraskóla á Norðurlandi, sem ekki hefir verið framfylgt. Jeg hygg, að Norðlendingar myndu ekki taka því með neinum þökkum, ef farið væri að stofna skóla á Austurlandi og ekki framfylgt lögunum frá 1917. Annars hafa ekki verið þær ástæður hjá okkur undanfarið, að hægt hafi verið að leggja mikið fje í nýja skóla. Mjer finst liggja næst að taka fyrst þá skóla, sem Alþingi er búið að samþ. fyrir löngu. Það yrði þá a. m. k. að taka þessa tvo í einu. Annars skal jeg ekki blanda mjer inn í það, hvort hv. deild vill samþ. þessa till. En það má ekki á nokkurn hátt gabba þessa ágætu konu. Hún verður að eiga víst að fá greiddan kostnað, sem hún hlýtur að leggja í við að svara þeim spurningum, sem fyrir hana yrði að leggja, en till. felur ekki í sjer heimild til neinnar slíkrar fjárveitingar.