14.05.1926
Neðri deild: 78. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í D-deild Alþingistíðinda. (3372)

89. mál, eftirgjöf á skuld

Fyrirspyrjandi (Jón Auðunn Jónsson):

Eins og menn hafa nú heyrt, þá er þetta á alt annan veg farið en sagt hefir verið, og farin venjuleg leið. Og fyrst það hefir þótt rjett að veita eftirgjöf á þessari skuld, þá er í sjálfu sjer ekki út á það að setja, nema það er a. m. k. óvenjulegt, þegar gefnar eru upp skuldir, að þá sje ekkert borgað um leið af eftirstöðvunum og engin trygging sett. Það er því auðsjeð, að Landsverslun er engu betur sett eftir en áður, en fjelagið sleppur við að borga um helming skuldarinnar og fær samning um mjög þægilegar afborganir á hinu. Jeg hygg nú, að mörgum öðrum, sem líkt hefði verið ástatt um, hefði verið gert að skyldu að greiða strax þá afborgun, sem um var samið, og ekki gefinn neinn frestur.

Út af þessu vil jeg svo beina því til hæstv. stjórnar, að þegar eftirleiðis verða teknar ákvarðanir um stórar eftirgjafir skulda af hálfu opinberra stofnana, þá hafi stjórnin einhverja hönd í bagga með slíku. Það er óviðkunnanlegt, sjerstaklega þegar um er að ræða svona stórar upphæðir af ríkisfje, að stjórnin skuli ekki hafa neitt um slíkt að segja. En eins og kom fram hjer nýlega, þá þykir ekki nægilegt, þegar beðið er um einhverja linun á skuldum við ríkissjóð, þótt fáist yfirlýstur jákvæður vilji meiri hl. hv. þm. í annari þingdeildinni, heldur má jafnvel koma slíkri málaleitun fyrir kattarnef í Ed., og þarf ekki einu sinni meira hl. þdm. til slíks. Það sjest ennfremur á svari hæstv. ráðh. (JÞ), að þessi eini skuldunautur, Kaupfjel. Rvíkur, hefir farið með fjórða hlutann af varasjóði verslunarinnar.