20.04.1926
Efri deild: 55. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í D-deild Alþingistíðinda. (3381)

44. mál, útibú frá Stykkishólmi frá Landsbankanum

Fyrirspyrjandi (Halldór Steinsson):

Jeg ætla aðeins að segja örfá orð, til að rjettlæta það, að þessi fyrirspurn er fram komin.

Á þinginu 1919 flutti jeg í þessari hv. deild svohljóðandi þáltill.:

„Alþingi ályktar að skora á landsstjórnina að hlutast til um, að útibú frá Landsbanka Íslands verði sett á stofn í Stykkishólmi“.

Þessari till. var mjög vel tekið í þessari hv. deild, fjhn. mælti með henni og till. var samþ. með 10 shlj. atkv.

Í Nd. fekk till. sömu góðu viðtökurnar, og fjhn. þeirrar hv. deildar, sem þá var skipuð núv. hæstv. atvrh. (M- G), hv. 1. þm. Eyf. (EÁ), hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) og tveim öðrum hv. þm., lagði til, að till. yrði samþ., og gat þess í nál., að hún hefði leitað álits stjórnar Landsbankans, og hefði hún látið uppi það álit sitt, að útibú gæti mætavel — hún notar það orð — þrifist á þessum stað. Sem sagt, nefndin lagði eindregið til, að till. yrði samþ. Hún mætti heldur ekki neinni mótspyrnu og var samþ. með 15 shlj. atkv.

Þetta mál fjekk þannig ágæta meðferð í þinginu 1919, og einn af stuðningsmönnum þess þá, hæstv. forsrh. (JM), sagði þá um það meðal annars: „Mjer er kunnugt um, að margir, sem til þekkja og hafa hugsað málið, telja, að meiri ástæða sje til að setja þarna útibú en sumstaðar annarsstaðar, sem þó hefir gengið á undan“.

Þetta gerðist árið 1919, og síðan eru nú liðin 7 ár, og mjer er ekki kunnugt um, að þær stjórnir, sem setið hafa að völdum síðan, hafi gert nokkuð til þess að hrinda þessu máli í framkvæmd. Það er þess vegna ekki að ófyrirsynju, að menn í suðurhluta Vestfirðingafjórðungs eru orðnir óþolinmóðir að bíða eftir framkvæmdum í þessu máli, og þá ekki heldur að ófyrirsynju, að þessi fyrirspurn er fram komin.

Svo framarlega sem þörf var fyrir þetta 1919, og það er viðurkent, þá hefir sú þörf aukist, en ekki minkað síðan.

Það var talið 1919, að um 8 þús. manna mundu hafa hag af útibúi á þessum stað, fremur en að sækja viðskifti sín annað, og síðan hefir þessum mönnum fjölgað og peningaþörfin aukist. Auðvitað eru sparisjóðirnir til nokkurra bóta, en þeir fullnægja alls ekki viðskiftaþörfinni, enda reka þeir ekki almenna bankastarfsemi. Af því leiðir, að menn á þessu svæði verða að leita til bankanna hjer í Rvík, og er það miklum erfiðleikum bundið, bæði sakir fjarlægðarinnar og vegna ókunnugleika bankastjórnanna hjer á högum manna úti um land. Jeg hefi á undanförnum árum átt tal við stjórn Landsbankans um þetta og altaf orðið að láta mjer nægja sama svarið, að bankinn sæi sjer ekki fært að stofna útibúið, vegna fjárskorts. En jeg hefi þó ekki getað varist þeirri hugsun, að sumum hinna stóru lána, sem veitt hafa verið undanfarin ár í Rvík og öðrum stærri kaupstöðum, gegn miður góðum tryggingum, hefði verið betur varið, ef þeim hefði verið jafnara skift milli hinna ýmsu landshluta. Þó að ýmsir færi þær ástæður gegn stofnun nýrra útibúa, að sum smærri útibú hafi ekki þrifist, þá hverfur þar fyrir ekki þörfin fyrir slíka stofnun, og hafa slíkar mótbárur því ekki við rök að styðjast.

Jeg þarf svo ekki að fjölyrða meira um þessa fyrirspurn. Mjer finst hæstv. stjórn hafa verið aðgerðalítil í þessu máli, en jeg vil nú leyfa mjer að skora á hana að gera sitt ítrasta til að hrinda þessu nauðsynjamáli í framkvæmd.