15.02.1926
Neðri deild: 7. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2402 í B-deild Alþingistíðinda. (3387)

Minning Sigurðar Sigurðssonar ráðunauts

forseti (BSv):

Um miðdegi í gær andaðist að heimili sínu hjer í bænum fyrverandi alþingismaður Sigurður Sigurðsson, ráðunautur Búnaðarfjelags Íslands. Hann var fæddur 21. okt. 1864 og því liðlega 61 árs að aldri. Sigurður heitinn var lengi þingmaður Árnesinga og átti jafnan sæti hjer í Nd. Árið 1901 var hann 2. þm. Árn., og sömuleiðis árin 1909–1911, en 1. þm. þeirra var hann árin 1912–1919. Hann var ötull talsmaður landbúnaðarins, bæði utan þings og innan, vinsæll bæði meðal þingmanna og eins meðal bænda víðsvegar um sveitir landsins, enda hafði hann víða, farið til þess að fræða bændur og leiðbeina þeim.

Bið jeg háttv. deildarmenn að standa upp til virðingar minningu þessa látna alþingismanns.

(Deildarmenn stóðu upp úr sætum sínum).