10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2409 í B-deild Alþingistíðinda. (3397)

Málshöfðun gegn þingmanni

Jón Baldvinsson:

Jeg var einráðinn í því, er krafa þessi kom fram, að vera á móti henni, því að jeg veit, að það er oft ákaflega lítilfjörlegt, sem hægt er að sekta menn fyrir. Jeg álít, að það eigi ekki að veita slíkt leyfi. Ef tekið væri alt það, sem menn tala hjer á Alþingi um opinberar stofnanir og menn, og það, sem kemur fram í blöðunum, þá mundu margar sektirnar verða þungar og mörg skaðabótamálin verða dæmd. Það yrði til þess, að enginn mundi þora að koma fram með nokkrar aðfinslur. En þingið er griðastaður, þar sem menn mega tala hispurslaust og í fullri alvöru, en þó með kurteisi, um menn og málefni. Þess vegna sje jeg ekki ástæðu til þess að veita leyfi til þess að lögsækja þm. Það var einnig viðurkent af hæstv. fjrh., að hv. þm. Str. hafi talað af fullri kurteisi.

En úr því að hv. þm. Str. hefir sjálfur óskað þess, að leyfið væri veitt, þá mun jeg líklega greiða atkvæði með því, enda þótt mjer sje ógeðfelt að ljá fylgi mitt slíkum till.