29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

1. mál, fjárlög 1927

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefi skrifað undir nál. á þskj. 240 með fyrirvara, og þykir mjer hlýða að gera nokkra grein fyrir honum. Ágreiningurinn í nefndinni er ekki mikill og einkanlega í því fólginn, að jeg vil engar ákveðnar till. gera um suma flóabáta, þar sem jeg tel, að aukapóstskip geti komið í þeirra stað eða ætti að koma. Þetta á þó ekki við um Skaftfelling, Borgarnesbát eða Djúpbát vestra. Þeirra verður meiri eða minni þörf, þótt aukapóstskip fáist.

Ræðu hv. frsm. samgmn. (JAJ) má hins vegar skoða eins og mótmæli gegn stefnu minni og margra annara þm. í strandferðamálum, en hún er í því fólgin að auka og treysta strandferðir að mun með öruggum skipum, en fækka flóabátaferðum með ljelegum farkostum. Jeg ætla ekki að fara frekar út í ástæður fyrir þeirri stefnu; þær eru þegar kunnar frá því að umr. stóðu um þetta hjer í deildinni fyrir fám vikum. Ekki ætla jeg heldur að mótmæla þeim almennu athugasemdum utan við þetta efni í ræðu háttv. frsm. (JAJ), enda gerist þess ekki þörf, því að þær voru fremur lausar í sjer. Jeg verð þó að minnast á þá staðhæfingu hans, að strandferðirnar sjeu miklu betri nú en á árunum 1908–1912. Hann kvað ýmist svo að orði, að þær væru betri eða ekki verri. Þessar fullyrðingar eru fyrst og fremst fjarstæðar vegna þess, að nú er aðeins eitt skip til strandferða haft í stað tveggja, sem þá voru, en auk þess verður þess að gæta, að nú eru gerðar og verður að gera meiri kröfur um samgöngur en áður, enda er það augljóst af samanburði áætlana strandskipana áður við „Esju“-ferðir nú, að samgöngurnar miðuðu áður meira að því að tengja saman öll hjeruð landsins, en nú meira að því að tengja saman stærri hafnir. Ferðirnar voru því áður meira miðaðar við almenningsþörfina en nú er.

Það er hinsvegar rjett hjá háttv. frsm. (JAJ), að ýmsar stærri hafnir hafa nú fleiri viðkomur á ári en áður, en það sýnir einmitt það, sem jeg held fram, að ferðirnar sjeu síður miðaðar nú við almenningsþörf en fyr.

Meginatriðið í stefnu okkar, sem viljum auka við einu strandferðaskipi og draga úr vjelbátaferðum, er einmitt það að koma öllum smáhöfnum í sem beinast og ódýrast samband við umhverfið og öll önnur hjeruð landsins, í líkingu við það, sem var 1908

Talsvert margar hafnir, er höfðu skipaviðkomur 1908, hafa nú annaðhvort enga eða mun færri en þá. Þar er því afturför og einangrunin meiri en áður. Hinsvegar eru ýmsar stærri hafnir nú betur settar en áður.

Auðvelt er að sýna það með samanburði áætlananna frá 1908 við áætlun strandferðaskipsins í ár, að smáhafnir eru nú lakar settar. Langar töflur þýðir ekki að lesa upp, en jeg vil þó nefna nokkrar hafnir á leið Austra frá 1908, sem ýmist hafa færri viðkomur nú en þá eða alls engar. Viðkomur voru þá, eftir áætlun í Keflavík 10, nú engin; á Stokkseyri 8, nú engin; á Hornafirði 12, nú engin; Loðmundarfirði 4, nú engin; í Vík 11, nú engin; í Grímsey 4, nú engin. Þá hafði Bakkafjörður 10 viðkomur, nú 8; Mjóifjörður 14, nú 10; Breiðdalsvík 14, nú 8; Stöðvarfjörður 8, nú 7; Raufarhöfn 9, nú 8; Flatey 7, nú 5.

Alveg var þessu eins farið um smáhafnirnar vestan og norðan, þar sem Vestri átti leið um, og getur víst enginn í alvöru haldið því fram, að þessi breyting sje til bóta fyrir smáhafnirnar eða nágrenni þeirra.

Það kemur ekki þessu máli við, þótt einhverjar af stærri höfnum landsins fái nú fleiri viðkomur millilandaskipa en áður; slíkt bætir ekki úr einangrun smáhafnanna, enda koma þau skip venjulega aðeins á þær hafnir, þar sem farm þarf að taka eða farmi að skila.

Þetta var það, sem jeg alment vildi taka fram viðvíkjandi hinum langa fyrirlestri háttv. frsm. samgmn. (JAJ) um samgöngur fyrrum og nú. Hann telur á því sviði framför mikla, en jeg tel hana litla sem enga, og þó sumstaðar afturför. Jeg get hinsvegar lýst því yfir af nýju, að þegar jeg skrifaði undir nál. með fyrirvara, þá var það ekki af því, að svo mikið bæri á milli um úthlutun styrksins, heldur vegna skipulags eða skipulagsleysis þess, sem á strandferðunum er. Þó taldi jeg og tel styrkinn til Hornafjarðarbáts of lágan, því að meðan ekki er fengið skip til strandferða, sem komið getur þar við, fer Hornafjörður oft á mis við skipaferðir, þótt þar sje álitleg verstöð síðari hluta vetrar og þess vegna mikil þörf samgangna þar. Aðalástæðan hjá mjer til fyrirvarans var, eins og áður er fram tekið, að jeg vildi hafa styrk sumra bátanna óbundinn og heimild til að breyta honum eða fella hann niður, ef fengið yrði annað skip með Esju til strandferða á þessum svæðum, hvort það yrði leigt eða keypt. Um annan minni háttar ágreining við samgmn. vil jeg ekki vekja deilur, og yfirleitt ætla jeg ekki að nota þetta tækifæri til að tala um aðrar brtt. við þennan kafla fjárlagafrv., sem nú bíður atkvgr. Jeg á þar engar sjálfstæðar brtt. og get því látið staðar numið að sinni.