10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2412 í B-deild Alþingistíðinda. (3401)

Málshöfðun gegn þingmanni

Benedikt Sveinsson:

Jeg bjóst að vísu ekki við að þurfa að taka til máls um það, sem hjer er að fara fram, en úr því sem komið er, verð jeg að segja fáein orð.

Jeg er þeirrar skoðunar, að þingið eigi að vera mjög tregt til að veita slíkar heimildir sem þessa, þ. e. til að lögsækja þm., því að Alþingi er friðheilagt innan þeirra takmarkana, sem stjórnarskráin setur. Vitanlega getur svo staðið á, einkum ef utanþingsmenn eiga hlut að máli, að frá þessu verði að víkja, og þess vegna er þessi varnagli sleginn í stjórnarskrá vorri, þinginu 1918 kom fyrir samskonar krafa, og heimildin var veitt, — aðeins vegna þess, að sá maður, sem fyrir lögsókninni átti að verða, mælti sjálfur með því; en þá var það utanþingsmaður, sem vildi lögsækja þingmann.

Jeg hefi talað við hv. þm. Dal. (BJ) nýlega, og hann sagði mjer, að hann hefði þá greitt atkvæði með því, að heimildin yrði veitt, aðeins fyrir bein tilmæli frá þeim, sem lögsækja átti.

En hjer er eigi um fullsambærilegt atriði að ræða, er það eru tveir þingmenn, sem eigast við, og geta þeir sjálfir rjett sinn hlut þegar í stað innan þings, sem er rjettur vettvangur.

Ef móðgandi eða meiðandi aðdróttanir hefðu verið bornar á hæstv. fjrh. í þingræðu, hefði jeg auðvitað vítt það þegar í stað, en þar sem jeg tók eigi eftir neinum meiðandi sakargiftum í ræðu hv. þm. Str., þá kom slíkt eigi til greina, enda kom hæstv. fjrh. sjálfur á vettvang og svaraði þegar allskörulega fyrir sig, og virtist mjer þá svo, að hvorugur ætti hjá öðrum.

Fyrir utan það, sem nú var talið, verður vel að gæta eins atriðis í kröfu hæstv. fjrh., áður en deildin geti fallist á kröfu hans. Hann biður um leyfi til að hefja málssókn út af orðum í ræðukafla, óleiðrjettum af þingmanninum sjálfum. Mjer virðist þessi ræðukafli, eða sjerstaklega fyrri hluti hans, bera með sjer, að hann getur ekki verið rjett hafður eftir; eru þar beinar mótsagnir, svo að úr verður endileysa ein. Hjer er því um bersýnilegar og sannanlegar villur að ræða. Þess vegna get jeg ekki sjeð, að hv. þingdeild geti leyft að nota óleiðrjettan ræðukafla til að hefja málssókn út af, enda væri það hreint brot á móti ákvæðum 52. gr. þingskapa, sem ákveða þingmönnum rjett til að leiðrjetta ræður sínar. Jeg mun því verða að greiða atkvæði á móti því, að málshöfðunarbeiðni hæstv. fjrh. verði samþykt.