10.05.1926
Neðri deild: 75. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2415 í B-deild Alþingistíðinda. (3406)

Málshöfðun gegn þingmanni

Magnús Torfason:

Jeg verð að segja, að jeg tel það allhart, að þingdeildin þurfi að eiga í þessu stappi út af slíku smámáli, sjerstaklega vegna þess, að hv. þm. Str. hefir þegar tvisvar lýst því yfir. bæði hjer í dag og áður, að hann hafi ekki ætlað sjer að drótta neinu óheiðarlegu að hæstv. fjrh. Jeg hefi ávalt skilið það svo, að ef menn hafa mælt, eitthvað hvatskeytlega hver til annars, en þóst síðan ofmælt hafa og lýst því yfir, að þeir hafi ekki haft neitt óheiðarlegt í huga. þá hafi verið látið þar við sitja. Þetta ætti hæstv. fjrh. að taka til greina, einkum þar sem hann sjálfur er alls ekki orðvarari en aðrir. Hann hefir fyrir skemstu borið fram í þingræðu svo svartar sakir á utanþingsmann, að jeg vil alls ekki endurtaka það hjer. En ef hann heldur þessari málshöfðunarbeiðni sinni fast fram, tel jeg hann skyldan til að endurtaka utan þings ummæli sín um Arnór Sigurjónsson skólastjóra, svo honum gefist kostur á að hreinsa sig af þeim.

Það eru tvær ástæður, sem gera það að verkum, að jeg get ekki greitt atkvæði með slíkum tillögum, sem hjer hefir komið til orða, að upp verði bornar. Sú fyrri er sú, að það er allhægt að eyða og berja niður allar aðfinslur á opinberri starfsemi með lögsóknum, ef menn vilja það viðhafa, eins og hegningarlögum vorum er nú háttað. Það má hreint og beint eyðileggja mann með lögsóknum, þótt hann aðeins hafi gert það eitt, sem rjett var. Og jeg get þar úr flokki talað, því að jeg hefi verið ofsóttur með málshöfðunum fyrir verk, sem hæstirjettur dæmdi rjett, og orðið útlægur um rúmar 1100 kr. fyrir, og mildi, að ekki varð meira. Það er svo auðvelt að misbeita málshöfðunarrjettinum, ef menn hafa aðeins nóg fje undir höndum. Alberti Íslandsráðherra drap niður öllum opinberum aðfinslum gegn sjer með málshöfðunum. Hann ljet höfða mörg hundruð slík mál um alla Danmörk, og það gat hann vel veitt sjer, því að hann stal því fje, sem hann þurfti að kasta til málssóknanna. Hann gereyðilagði líf eins manns, sem hann ofsótti þannig, svo að maðurinn varð að flýja land og fór til Ameríku; og það var fyrst eftir að Alberti komst í steininn. 20 árum síðar, að hann fjekk nokkra rjetting sinna mála. Af þessu má sjá, að það gæti orðið varhugaverð braut að leggja út á, ef þingið færi að ýta undir slíkar málshöfðanir peningamanna.

Nú er jeg með þessu alls ekki að drótta neinu misjöfnu að hæstv. fjrh., því jeg tel hann heiðarlegan mann, og jeg veit einnig, að hv. þm. Str. metur hann mikils, líklega langmest allra flokksbræðra hæstv. ráðherra hjer í deildinni.

Þá kem jeg að öðru atriði í þessu máli, sem hv. þm. N.-Þ. (BSv), hæstv. forseti þessarar deildar, vjek að í ræðu sinni áðan, sem ærið væri nóg til þess að samþykkja ekki till. hæstv. fjrh., því að ef hún verður samþykt, er hún beinlínis yfirlýsing frá þingsins hálfu um það, að handrit skrifaranna sjeu rjett afrit af ræðum þingmanna. Þetta vil jeg ekki skrifa undir. Jeg hefi sjálfur orðið fyrir barðinu á þeim; jeg hefi jafnvel verið látinn tala á móti minni eigin skoðun í máli. Svo lítið er að marka það, sem skrifararnir láta frá sjer fara. Jeg tel því ekki aðeins ósanngjarnt, heldur algerlega ófært að leyfa málshöfðun bygða á handriti skrifaranna án þess að þau sjeu leiðrjett af viðkomandi þingmönnum. Það mundi þá þýða það, að 52. gr. þingskapanna væri alveg úr gildi feld; en þar er þingmönnum heimilað að leiðrjetta ræður sínar. Jeg tel því ekki geta komið til mála að samþykkja till., því það væri beint brot á þingsköpum, ef handrit skrifaranna eiga að standa. óhögguð, en leiðrjettingar þm. gerðar þýðingarlausar.