12.02.1926
Neðri deild: 5. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

14. mál, áveita á Flóann

Atvinnumálaráðherra (MG):

Flóaáveitan er nú svo langt komin, að telja má nokkurnveginn víst, að lokið verði við hina eiginlegu áveitu á næsta sumri. Kostnaðurinn mun verða talsvert minni en áætlað var, er verkið var hafið. Býst jeg við að kostnaðurinn verði ekki langt yfir 1 milj. kr., en mun hafa verið áætlaður nálægt 1½ milj. kr. Þegar mun vera búið að borga um 870 þús. kr. En þótt kostnaðurinn hafi ekki orðið meiri en þetta er áveita þessi þó langstærsta jarðræktarfyrirtækið, sem nokkru sinni hefur verið framkvæmt hjer á landi. Það skiftir því ákaflega miklu máli, hversu þessu mannvirki reiðir af því að mishepnist það, er hætt við, að það veki ótrú landsmanna á því að leggja stórfje í íslenskan landbúnað, og væri það illa farið.

Eins og kunnugt er, hefir ríkissjóður lagt fram alt fjeð til áveitunnar, og er ¼ hluti þess styrkur, en ¾ lán til eigenda jarða á áveitusvæðinu.

Það er því auðsætt, að hið opinbera á mikilla hagsmuna að gæta austur þar, bæði vegna þessa láns og vegna þeirra hagsmuna og vona, sem tengdar eru við þetta stærsta landbúnaðarfyrirtæki landsins. En af þessu leiðir aftur, að hið opinbera hlýtur að láta sig skifta það miklu máli, að þeir möguleikar, sem áveitan veitir, verði notaðir sem best og komi að sem fylstum notum. Til þess að svo megi verða, er ekki nóg að koma upp áveituskurðum, þurkunarskurðum og flóðgörðum, heldur verður einnig að sjá fyrir því, að íbúar áveitusvæðisins geti komið hinum væntanlegu auknu afurðum í peninga. Til þess að þetta megi verða, er sjerstaklega tvent nauðsynlegt og það er að leggja vegi um áveitusvæðið og byggja mjólkurbú, eitt eða fleiri. Nú er það svo, að lög nr. 68, 1917, um Flóaáveituna, ná ekki til vegagerða eða mjólkurbúabygginga á svæðinu, og frv. þetta fer því í þá átt, að heimila landsstjórninni að láta framkvæma þessi mannvirki, að undangenginni rannsókn þannig að kostnaður greiðist eftir því, sem um semst milli landsstjórnarinnar og íbúa áveitusvæðisins.

Jeg skal að síðustu taka það fram, að frv. þetta er flutt í samráði við áveitufjelagsstjórnina.

Að öðru leyti leyfi jeg mjer að vísa til athugasemdanna við þetta frv. og óska, að málinu verði, að lokinni þessari umræðu vísað til landbúnaðarnefndar.