12.02.1926
Neðri deild: 5. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 880 í B-deild Alþingistíðinda. (348)

14. mál, áveita á Flóann

Atvinnumálaráðherra (MG):

Eins og hv. þm. Str. (TrÞ) tók fram, er jeg nokkuð kunnugur jarðræktarlögunum. En jeg fæ ekki sjeð, að nokkurt stríð sje milli þeirra og þessa frv. Hv. þm. slepti dálitlu úr, er hann var að lesa upp úr jarðræktarlögunum, sem sje því, að Búnaðarfjelag Íslands ætti að hafa umsjón slíkra fyrirtækja, nema lög mæltu öðruvísi fyrir. Um Flóaáveituna var það ákveðið, að hún ætti ekki að heyra undir Búnaðarfjelag Íslands, og hjer er því beint áframhald, en engin ný stefna. Þetta frv. er borið fram í samráði við stjórn áveitufjelagsins eystra, og þar sem Búnaðarfjelagið hefir ekki haft bein afskifti af þessu hingað til, er ekki rjett að heimta það nú. En jeg get fullvissað hv. þm. um það, að Búnaðarfjelagið verður ekki sett hjá. Í nefnd sjerfræðinga, sem stjórnin skipar, er gert ráð fyrir því, að Búnaðarfjelag Íslands hafi einn mann. En annars býst jeg við því, að útlendur maður verði fenginn upp til þess að sjá um fyrirkomulag á mjólkurbúunum, og þá helst danskur, því að í Danmörku eru slík bú í mestum blóma.

Mjer skildist á hv. þm., að hann teldi Skeiðaáveituna ekki standa undir Búnaðarfjelaginn, en það er ekki rjett; það hefir haft mann eystra til umsjónar.

Jeg endurtek það, að hjer í þessu máli er ekki um neina nýja stefnu að ræða; hjer er haldið sömu stefnu og áður um Flóaáveituna. Að því er snertir aðrar jarðræktarframkvæmdir, þá eru þær undir stjórn Búnaðarfjelags Íslands, nema öðruvísi sje um mælt.