24.04.1926
Neðri deild: 61. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í C-deild Alþingistíðinda. (3484)

57. mál, einkasala á tilbúnum áburði

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Jeg bjóst við, að jeg þyrfti ekki að standa upp í þriðja skiftið, en þar sem hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) rjeðst á brtt. nefndarinnar, skal jeg segja fáein orð. Hv. þm. (JAJ) dró þá fyrst fram nál., eins og fleiri, og talaði um, að hjer hefði ekki verið um neitt umboð að ræða. Jeg skal ekki segja um, hvernig menn vilja leggja út símskeyti, sem jeg hefi sjeð, er hljóðaði um það, hvort það væri Sigurður Sigurðsson eða Búnaðarfjelag Íslands, sem annaðist söluna. Þar stendur, að Búnaðarfjelag Íslands sje „eneforhandler“. Hvernig menn vilja leggja það út á íslensku, skal jeg ekki segja, en jeg býst við, að flestir skilji meininguna í því máli. Þá spurðist hv. þm. (JAJ) fyrir um það, hvort notendur hefðu orðið fyrir þungum búsifjum síðastliðið ár. Þar til er því að svara, að það mun ekki hafa orðið, og það af þeim ástæðum, að það lítur út fyrir, að það hafi verið samantekin ráð hjá firmanu Nathan & Olsen og framkvæmdastjóra Búnaðarfjelagsins, að það yrði ekki upplýst, hver í raun og veru hefði þarna ráðin. Firmað mun hafa verið þarna til viðtals við stjórn Búnaðarfjelagsins og ekki hafa gefið upp með einu orði, að það hefði umboðið. Auk þess vil jeg bæta því við, að í brjefi, sem fyrir liggur, hefir firmað Nathan & Olsen lofað að tala við stjórn Búnaðarfjelagsins, en hún þvertekur fyrir, að firmað Nathan & Olsen hafi nokurn tíma gert það, eða ekki við stjórnina sjálfa, heldur kannske búnaðarmálastjóra, það veit jeg ekki um, en þegar þannig er ástatt, tek jeg ekki svo mjög mikið mark á því, þó að verðið hækkaði ekki mikið síðastliðið ár; en hvað því viðvíkur, að þetta geti ekki orðið neinn óhagur fyrir notendur, þó að Noregssaltpjetur væri á hendi einu firma, þá vil jeg benda á, að hv. þm. (JAJ) sleppir bara því atriði, að það er ekki einasta Noregssaltpjetur, heldur allur annar kalksaltpjetur, sem þetta firma selur, og að minsta kosti eigum við ekki á annan hátt aðgang að þeim áburðarefnum, sem eru heppilegust fyrir okkur.

Jeg hefi ekkert staðhæft um, að þeir hafi tilhneigingar eða löngun til þess að okra á áburðarsölunni. Hinsvegar verður því ekki neitað, að aðstaðan til þess er góð, eins og stendur, og jafnvel eftir frv. líka. Og það, sem við óskum að ná með brtt. okkar, er það, að þessi aðstaða breytist eða hverfi úr sögunni.

Þá spurði sami hv. þm. (JAJ), hvað unnið væri í þessu efni, ef verslunarhúsið hjeldi sínu hundraðsgjaldi. Jeg held, að hann hafi spurt um það, sem hann vissi, jafn-verslunarfróður maður og hann er. En svarað get jeg þó honum með því, að benda á, að með einkasölu væri þó hægt í bili að útiloka þetta. Honum fanst skilyrðið hjákátlegt, við það nenni jeg ekki að vera að elta ólar, enda lítur helst út fyrir, að þessi háttv. þm. (JAJ) hafi alls ekki lesið frv., að minsta kosti er hann lítið vitandi um sum fyrirmæli þess.