12.02.1926
Neðri deild: 5. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 882 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

14. mál, áveita á Flóann

Sveinn Ólafsson:

Mjer virðist þetta frv. til viðaukalaga við Flóaáveitulögin brjóta mjög í bág við þá stefnu, sem tekin var með Flóaáveitulögunum frá 1917. Þar voru fastákveðin framlög ákveðin til áveitufyrirtækisins frá ríkissjóði og hjeraðsbúum, sem sje ¼ kostnaður frá ríkinu og ¾ frá búendum. En samkvæmt þessu frv. er alt lagt í vald stjórnarinnar, sem eftir 1. gr. getur samið um framlög ríkissjóðs og jafnvel svo, að hann greiði alt. Er því ákvörðunarrjetturinn í þessu máli um fjárveitinguna tekinn frá Alþingi. Þetta gerir frv. í mínum augum óviðfeldið, og vil jeg undirstrika þennan stefnumun frá eldri lögunum áður en frv. fer lengra, til athugunar fyrir væntanlega nefnd.

Hæstv. atvrh. leggur til, að frv. verði vísað til landbúnaðarnefndar. Ætti það vel við, ef aðeins væri að ræða um stofnun mjólkurbúa eða þess háttar búnaðarbætur. En hjer er fult eins mikið um vegamál að ræða eina og landbúnaðarmál. Það er augljóst af þessu frv., að aðalatriðið, sem um er að ræða á þessum áveitusvæðum, eru vegalagningar, og er þetta því að meira leyti samgöngumál eða vegamál en landbúnaðarmál. Þess vegna hefði verið rjettast að vísa frv. til samgmn., en með því að jeg á sjálfur sæti í þeirri nefnd vil jeg ekki gera það að tillögu minni.

Aðallega vakti það fyrir mjer, er jeg stóð upp, að benda á þann stefnumun, sem kemur fram í þessu frv., þegar það er borið saman við Flóaáveitulögin frá 1917, og vekja eftirtekt væntanlegrar nefndar á því, að hann er hvorki óverulegur nje heppilegur.