02.03.1926
Neðri deild: 18. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 887 í B-deild Alþingistíðinda. (355)

14. mál, áveita á Flóann

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg get verið hv. landbn. þakklátur fyrir meðferð hennar á málinu. Hefir hún ekki gert svo miklar breytingar á frv., að orð sje á gerandi. Jeg hafði að vísu ekki hugsað mjer, að tillag ríkissjóðs væri takmarkað á þann veg, sem nefndin vill, en af því að jeg hafði ekki hugsað mjer að leggja meira fram en nefndin stingur upp á, þá get jeg sætt mig við brtt. hv. nefndar.

Um brtt. á þskj. 75 get jeg þess, að hana mun ekki bera að skilja þannig, að hún eigi að útiloka, að fjárframlög komi frá fleirum en íbúum áveitusvæðisins, t. d. frá sýslusjóði. Finst mjer það ekki óeðlilegt, að sýslan legði eitthvað af mörkum, því að áveitan verður fleirum til hagsmuna en þeim, sem búa á áveitusvæðinu. Jeg álít ekki rjett að jafna öllum kostnaðinum niður, eins og hv. nefnd gerir ráð fyrir, og vil skjóta því til hennar, að hún víki við orðalagi brtt. fyrir 3. umr.

Það gleður mig, að hv. nefnd hefir gengið inn á að skoða það sem yfirlýstan þingvilja, að áveitan á Flóann sje gerð svo úr garði, að hún komi að fullum notum og verði að sem mestu gagni.