04.03.1926
Neðri deild: 21. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í B-deild Alþingistíðinda. (365)

14. mál, áveita á Flóann

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það syngur við sama tóninn hjá hv. þm. Str. (TrÞ) og við 1. umr. þessa máls. Munurinn aðeins sá, að nú er það landbn., sem hann beinir mótmælum sínum að, því að hann þykist víst hafa gengið af mjer dauðum. Út af ummælum hans vil jeg minna hann á, að ekki var gengið framhjá Búnaðarfjelagi Íslands þegar lögin um Flóaáveituna voru sett, því í nefnd þeirri, sem undirbjó lögin, var hinn nýlátni starfsmaður fjelagsins, sá maður, sem um langt skeið fjekst mest við áveitumál hjer á landi. Og það eru einmitt tillögur hans, sem koma fram í lögunum. Er því ekki hægt að segja, að gengið hafi verið framhjá Búnaðarfjelaginu, heldur þvert á móti.

Það er líka langt frá, að gengið sje framhjá Búnaðarfjelaginu í frv. þessu, og nægir í því efni að benda á 2. gr. þess. Þar stendur : „Áður en ráðist er í framkvæmdir samkvæmt 1. gr., skal landsstjórnin skipa nefnd manna, er geri tillögur um, hver mannvirki skuli gera og hversu þeim skuli haga. Auk þess er stjórninni heimilt að kveðja sjerfræðinga til, eftir því, sem nauðsynlegt telst.“

Hafi nú Búnaðarfjelagið sjerfræðingum á að skipa, er skylda stjórnarinnar að taka þá. Annars hefir verk þetta hingað til verið þannig vaxið, að það hefir verið sjerfróðra verkfræðinga einna að sjá um það. En Búnaðarfjelagið hefir engum slíkum mönnum haft á að skipa.

En nú, þegar fer að síga á seinni hluta verksins, kemur að því, að kveðja þarf aðra ráðunauta til, en það skal jeg taka skýrt fram, að engum dettur í hug að leita til Búnaðarfjelagsins með það, hvernig t. d. vegirnir verði lagðir um áveitusvæðið. Um það mun verða leitað til vegamálastjóra. Segi jeg þetta af því að mjer skildist á hv. þm. Str., að hann vilji láta Búnaðarfjelagið ráða öllu um þetta mál. Jeg vil vitanlega, að til fjelagsins verði leitað um þau atriði, þar sem það á við, en ekki um þau atriði, sem það ber ekkert skyn á. Annars hafa allar framkvæmdir í þessu máli verið gerðar í samráði við stjórn áveitufjelagsins, sem eru íbúar á áveitusvæðinu.

Jeg verð að segja það, að mjer þykir leiðinlegt að heyra altaf verið að tala um kostnaðaraukann við Skeiðaáveituna. Get jeg tekið undir það með hv. 2. þm. Árn. (JörB), að þar sje aðeins hálfsögð sagan. Því að ekkert tillit hefir verið tekið til dýrtíðarinnar, sem var þegar verkið var framkvæmt, en ekki var hægt að sjá fyrir, þegar áætlunin var gerð. Ef þessi hv. þm. (TrÞ) vill fá nefnd fleiri dæmi um áveitur, má nefna Miklavatnsmýraráveituna. Um hana hefir Búnaðarfjelag Íslands sjeð að öllu leyti, en þó hefir síst gengið betur með hana en t. d. Skeiðaáveituna.

Eins og jeg nú hefi sýnt fram á, hefir þetta ekki verið verk Búnaðarfjelagsins, heldur sjerfræðinga, og svo verður enn. Vegagerðin verður falin vegamálastjóra. En þegar kemur að því að stofna rjómabú á svæðinu, verður Búnaðarfjelagið vitanlega kvatt til.