04.03.1926
Neðri deild: 21. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 898 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

14. mál, áveita á Flóann

Fjármálaráðherra (JÞ):

Af því að jeg hefi verið kunnugur Flóaáveitunni um lengri tíma, þá vildi jeg árjetta ummæli hæstv. atvrh. (MG) og hv. frsm. (JörB) viðvíkjandi afskiftum Búnaðarfjelags Íslands af því máli. Það sanna er, að Flóaáveitan er búin að vera lengi á döfinni, jafnvel fleiri áratugi, og það lengst af í höndum Búnaðarfjelags Íslands.

Mig minnir helst, að fyrstu mælingar fyrir áveitunni færu fram meðan fjelagið hjet Búnaðarfjelag Suðuramtsins. Voru þær gerðar af Sæmundi sál. Eyjólfssyni. Seinna gerði Búnaðarfjelag Íslands ráðstafanir til að fá verkfræðing frá útlöndum, og varð það til þess, að verkfræðingur var sendur hingað frá Heiðafjelaginu danska. Í samvinnu við hann hafði svo Búnaðarfjelagið ráðunaut sinn, Sigurð sál. Sigurðsson. Svona var það; fjelagið hafði málið í sínum höndum allar götur, þar til kom að framkvæmdunum.

Jeg veit því ekki, yfir hverju háttv. þm. Str. (TrÞ) hefir að kvarta, nema ef vera skyldi það, að enginn verkfræðingur hefir verið í þjónustu Búnaðarfjelagsins.

Að síðustu vil jeg taka það fram, að ríkissjóður hefir ekki lagt til þessa stórvirkis nema ¼ kostnaðar; ¾ hvíla því á áveitufjelaginu. Jeg verð því að segja, að það væri harla óeðlilegt, að tekið væri langt fram fyrir hendurnar á þessum fjelagsskap með það, hverjum stjórn hans vill trúa fyrir framkvæmd þessara verka.