26.03.1926
Neðri deild: 41. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 903 í B-deild Alþingistíðinda. (387)

68. mál, stýrimannaskólinn

Frsm. (Sigurjón Jónsson):

Sjútvn. hefir haft þetta frv. til meðferðar og vill mæla með því, að það verði samþykt óbreytt.

Þessi breyting á lögunum um stýrimannaskólann, sem frv. felur í sjer, er aðeins í því fólgin, að frekari kröfur eru nú gerðar til þeirra manna, sem ganga undir farmannapróf, þ. e. til þeirra skipstjóraefna, sem ætlað er, að eigi fyrir höndum að sigla hjeðan skipum til útlanda. Í lögunum frá 1924 var ekki talað um, að þeir skyldu vera færir um að skrifa á dönsku eða ensku, en þetta eru kröfur, sem tíðkast hefir í þessum skóla, að gerðar væru til þessara manna, — að þeir væru það færir í þessum málum, að þeir gætu talað þau og gert skriflega grein fyrir því, sem þeir hefðu lesið. Nefndin hefir álitið, að rjett væri að gera þessa kröfu til slíkra skipstjóraefna og álítur þær alls ekki of miklar. Fyrir þeim liggur að sigla oft skipum hjeðan frá landi til útlanda, og þar eiga þeir þá að koma fram fyrir hönd þjóðar sinnar.