12.03.1926
Efri deild: 26. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 915 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

12. mál, kynbætur hesta

Einar Árnason:

Hv. frsm. nefndarinnar (EP) sagði, að nefndin hefði borið sína till. undir einn mann í landbn. Nd., og efast jeg ekki um, að það sje rjett. En jeg bar mína brtt. undir þennan sama mann, og seinna undir fleiri menn úr nefndinni, og okkur kom saman um, að að vísu væri till. nefndarinnar til bóta, en ekki væri hún samt svo góð, að ekki mætti betur gera, og væri mín brtt. betri en brtt. hv. nefndar.

Þá skildist mjer hv. frsm. halda því fram, að þegar svo stæði á, að sveitarfjelag ætti kynbótahest, þá heyrði það undir önnur lög en þessi, sem hjer er verið að setja, og þess vegna gæti mín brtt. ekki átt við þetta frv. En hjer hefir hv. frsm. verið að gera að gamni sínu; því lögin frá 1891 koma þessu frv. alls ekkert við. Í 10. gr. frv. er það tekið fram, að öll lagaákvæði, er koma í bága við það, sjeu úr gildi numin, og í 2. og 3. gr. er það skilyrðislaust fyrirskipað, að í hverjum einasta hreppi á landinu skuli vera ekki einungis kynbótanefnd, heldur kynbótahestur líka. Frv. er því alveg sjálfstætt og óbundið af öðrum lögum. Eldri lög geta heldur ekki komið í bága við brtt. mína. Hún er aðeins til þess að gera þá stefnu, sem hv. landbn. vill fylgja með sinni brtt., nokkru skýrari og ákveðnari.

Hv. frsm. talaði um, að margir hreppar gætu slegið sjer saman, þar sem hross væru ekki mörg. En þetta er hægara sagt en gert. Í minni sveit hafa verið gerðar ítrekaðar tilraunir til þess að fá nágrannahreppana til að slá sjer saman, en það hefir ekki verið hægt að fá samkomulag. Enda mætti skoða það sem brot á ákvæðum 3. gr.

Jeg get ekki sjeð, að hv. form. nefndarinnar, sem nú hefir tekið að sjer framsöguna, hafi ástæðu til að vera á móti brtt. minni, því að jeg hefi borið hana undir þann mann úr hv. nefnd, sem er hinn rannverulegi frsm., og hann hafði ekkert á móti henni. Hann taldi, að það eina, sem gæti verið álitamál, væri hámarkið. Hann vildi heldur, að það væri 10 krónur.