29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (41)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Jeg hefi ekki ástæðu til að tala langt mál, þar sem aðeins að örlitlu leyti hafa verið gerðar athugasemdir við gerðir nefndarinnar; jeg hefi fult eins mikla ástæðu til að þakka hv. deild undirtektir hennar undir brtt. þær, sem nefndin hefir komið með, nema þær, sem lutu að tveimur liðum tekjuáætlunarinnar.

Hæstv. fjrh. (JÞ) kom að því, sem jeg drap á, að stjórnin hefði ein tök á að gera tekjuáætlunina best úr garði. Áleit hann, að það væri ekki hægt og þess vegna hefði hann gert tilraun til að breyta reikningsárinu, og var jeg því fylgjandi á sínum tíma. En þótt sú breyting hefði komist á, áleit nefndin samt, að stjórnin ætti betri aðstöðu en fjvn. til þess að hafa sem glegst yfirlit yfir fjárhag ríkissjóðs. Það er rjett, að stjórnin gerir áætlun sína nokkuð snemma; en þegar litið er á það, að hún getur eftir því útliti, sem þá er, miðað við það, sem átt hefir sjer stað áður á hverjum ársfjórðungi, þá dylst engum, að stjórnin stendur betur að vígi. Hæstv. fjrh. taldi ekki hafa komið fram næg rök til þess að hækka tekjuhliðina; jeg tók það fram í framsöguræðu minni, að þetta væri rjett, þar sem hækkunin væri gerð af líkum einum. Þótti mjer því vænt um, að hæstv. fjrh. er á sama máli og nefndin, og vill hún styðja hann í því að fara varlega í þessum efnum.

Vil jeg þessu næst víkja nokkrum orðum að ræðum háttv. þm sem hjer flytja brtt. og hafa mælt fyrir þeim, og mun jeg fylgja röðinni eftir því, sem menn hafa talað, þegar jeg geri athugasemdir við ræður þeirra og skýri afstöðu nefndarinnar til brtt.

Hv. 2. þm. Rang. (KlJ) hjelt því fram, að rjett væri, að fjhn. fengi tekjuhliðina til athugunar. En, eins og jeg hefi áður tekið fram, felli jeg mig vel við þetta fyrirkomulag, sem nú er. Enda var komin reynsla á, að þetta reyndist illa. Fyrstu 2 árin eftir að núgildandi þingsköp komu í gildi, hafði fjhn. tekjuhliðina. Frá þessu var horfið, og hafði þar með reynslan skorið úr. Það hefir líka komið í ljós nú, að það er mjög óheppilegt, að 2 nefndir hafi sama frv. til meðferðar, og getur það gefið tilefni til mikils ósamkomulags. Ef fjhn. ætti að gera till. um tekjuhliðina, getur hún komist, eins og hún hefir nú komist, að annari niðurstöðu en fjvn. Hún vill hækka fleiri liði, og suma meira en fjvn., eða um 150 þús. fram yfir till. fjvn. Að einu leyti heyrðist mjer háttv. þm. vera fjvn. mjög andstæður hvað hækkun snertir; en það er tekjuskatturinn og eignarskatturinn. Eftir öllu útliti eru líkur til, að þessi liður lækki jafnvel meira en hæstv. stjórn gerir ráð fyrir. Hvað snertir síma og póst, hefir fjvn. líka komist að þeirri niðurstöðu að hækka ekki þessa liði. Þess er líka að gæta, að þegar 2 nefndir standa hvor gegn annari, skiftast atkv. deildarinnar og verður af sundrung. Þetta væri mjög óheppilegt, og jeg vænti þess, að fjhn. ráðist ekki í að koma fram með brtt., því að fjvn. mun standa fast við sínar till. Sami háttv. þm. mintist á afgang af símatekjum, og skal jeg í því efni skírskota til þess, sem hæstv. atvrh. hefir sagt um þetta, að ef bygð væri loftskeytastöðin í Öræfum, yrði ekki um afgang að ræða, en það væri óráðið enn, hvort það yrði gert á þessu ári. Raunar hefir nefndin gert ráð fyrir því, að þetta yrði ekki gert, eins og jeg hefi áður tekið fram. Hvað snertir síma og brúargerðir, þá eru fjárveitingar til þess ekki alveg einskorðaðar við viss fyrirtæki, heldur á að grípa til þeirra, ef með þarf, á ýmsum stöðum. Þannig hefir nefndin ekki fengið neinar fastar áætlanir frá hæstv. stjórn eða vegamálastjóra um þetta.

Þá er næstur háttv. þm. Ísaf. (SigurjJ). Hann á brtt. á þskj. 230, um að hækka liðinn til endurgreiðslu lána um 60 þús. og jafnframt veita þá upphæð til bryggjugerðar á Ísafirði. Þetta er hv. þm. kunnugt frá fyrri þingum. Það er krafa frá Ísfirðingum um að ríkið greiði að sínu leyti kostnað við bryggjugerð á Ísafirði, og þykjast þeir hafa lagt í það fyrirtæki í fullri lagaheimild. Háttv. þm. las upp þessu til sönnunar kafla úr hafnarlögum fyrir Ísafjarðarkaupstað. Að vísu mun hann hafa lesið of langt, þar sem lögin heimila þetta ekki fyr en það er tekið í fjárlög; en þessu mun þó þannig varið, að líklega verður ekki hægt að ganga í móti þessari kröfu. Þegar fyrv. stjórn samþykti kaupin á Hæstakaupstað fyrir Ísafjörð, skuldbatt hún í raun og veru ríkið til þessa. Kaupin voru sem sje gerð með því skilyrði, að þessi bryggja yrði gerð, og frestun á því varðaði dagsektum. Það er þess vegna naumast hægt fyrir þingið að neita um þetta, enda þótt fje hafi ekki verið veitt í þessu skyni í fjárlögum eins og lög standa til. Annars eru óbundin atkv. í nefndinni um þetta. Jeg skal taka það fram, þó að það sje óþarfi, að hjer er ekki um bein útgjöld að ræða, þar sem þetta stendur inni hjá bænum sem hallærislán og mundi ef til vill ekki verða greitt nema það kæmi á þennan hátt.

Í öðru lagi mintist háttv. þm. á lokastyrk til byggingar sjúkrahússins á Ísafirði, og eru það 10 þús. kr., sem hann fer fram á, að veittar verði í þessu skyni.

Það er venjan með sjúkrahús, að ríkið greiði 1/3 kostnaðar, en miðað við það ættu það ekki að vera nema rúmar 7 þús. kr., sem ríkinu ber að greiða, og er því nokkuð málum blandað með þessar 3 þús. kr., sem fram yfir eru. Það er meiningin, að þetta eigi að vera endurgreiðsla á verðtolli, en þess er ekki gætt, að hann hefir komið fram í byggingarkostnaðinum, og verður hans því ekki krafist sjerstaklega. Nefndin er þess vegna algerlega á móti, að þessi till. verði samþykt, af þeim ástæðum, sem jeg nú hefi bent á, enda kæmi það í bága. við þá grundvallarreglu, sem altaf er bygt á í þessum málum.

Þá er næstur háttv. 2. þm. Eyf. (BSt). Hann flytur brtt. um styrk til byggingar sjúkrahúss á Siglufirði. Fjvn. hefir lagt til að hækka upphæðina til sjúkraskýla og læknisbústaða upp í 23 þús. kr., og látið þess getið, að hún ætlaðist til, að því fje yrði varið til byggingar þessa sjúkrahúss, enda myndi það nema hinum venjulega 1/3 hluta ríkissjóðs samkv. kostnaðaráætlun. Háttv. þm. fer fram á, að þessi upphæð verði hækkuð upp í 30 þús. kr., og skilst mjer, að það sje af því, að hann vilji ekki binda sig við, að ríkið greiði aðeins 1/3 hluta, af þeim ástæðum, að þetta sjúkrahús verði að vissu leyti fyrir alt landið. En þetta má segja um fleiri staði og svo er yfir höfuð alstaðar að meira eða minna leyti, að sjúkrahúsin koma mörgum fleiri að notum en hjeraðsbúum sjálfum, og telur nefndin ekki ástæðu til að víkja frá reglunni um þetta. Hinsvegar er nefndin fyllilega meðmælt þessari sjúkrahúsbyggingu þeirra Siglfirðinga og telur illa farið, að hún skuli ekki hafa komist í framkvæmd fyrr, því að auðsætt er, að hjer er um brýna nauðsyn að ræða.

Háttv. þm. Mýr. (PÞ) hefir tekið sína brtt. aftur.

Hv. þm. N.-M. flytja brtt. um að hækka tillagið til Hróarstunguvegarins og láta fullgera hann á 2. árum, en nefndin ætlast til, að það verði gert á 3 árum. Umsókn um þetta lá fyrir nefndinni, og sá hún sjer ekki fært að mæla með henni, en hækkaði hinsvegar liðinn nokkuð og jafnaði tillaginu niður á 3 ár. Nefndin getur ekki fallist á meiri hækkun eða að verkið verði framkvæmt á 2 árum, enda margt annað víðsvegar um landið, sem bíður framkvæmda. Þá er önnur brtt. frá háttv. þm. N.-M. um nýja símalínu til Loðmundarfjarðar frá Seyðisfirði. Fjvn. hefir í áliti sínu drepið á þetta og tekið fram, að landssímastjóri leggi til, að þessi lína verði lögð. Um þessa brtt. eru óbundin atkv. í fjvn., en jeg skal taka það fram fyrir mitt leyti, að jeg tel að ástæðurnar mæli mjög með þessu. Loðmundarfjörður er mjög afskektur, og er þar oft illfært á landi til Seyðisfjarðar og ófært á sjó, og væri því mjög mikilsvert að fá þessa símalínu til þess að geta haft eitthvert samband við umhverfið.

Þá er næstur háttv. þm. Borgf. (PO). Hann var töluvert ergilegur í minn garð út af því, að jeg hafði ekki undanskilið hann frá hálfu fjvn. út af till. hennar um að hækka tekjuliðinn af vínfangatolli og víneinkasölu. Jeg mundi sem sagt ekki eftir því í svipinn, að hann hafði greitt atkv. á móti þessu, enda gerði hann það ekki með neinum ákveðnum ummælum, og því fanst mjer hann vera sammála kollega sínum, hv. þm. Str. (TrÞ). Hann mintist og á, að fjhn. væri með mjer um þessa hækkun, og er það líklega gert til þess að gera mig betri í augum deildarinnar. Hv. þm. á brtt. á þskj. 230, um eftirgjöf á 3 þús. kr. hallærisláni til Innri-Akraneshrepps. Um þessa till. er ekki meiri hluti á hvoruga hlið í fjvn., og eru óbundin atkv. um hana. En jeg vil taka það fram fyrir hönd þeirra nefndarmanna, sem ekki eru henni samþykkir, að hjer er um varhugavert fordæmi að ræða; með því að gefa einu sveitarfjelagi eftir slíka skuld, er öðrum, sem líkt er ástatt fyrir, gefið undir fótinn og hætt við, að þau komi á eftir. Hinsvegar mun nú auðvelt að komast að hagkvæmum samningum um greiðslu þessara lána, og sje jeg ekki, að ástæða sje til að gefa þetta eftir, með því að um smáupphæð er að ræða, sem ætti að vera vel viðráðanleg.

Þá er næstur hv. 3. þm. Reykv. (JakM). Hann hefir enga brtt. gert við þennan kafla, en mintist á tekjuhliðina. Jeg hefi nú minst á hana áður í sambandi við hv. 2. þm. Rang., en jeg skal gjarnan víkja að henni aftur. Hv. þm. taldi áætlunina fjarstæðu og hjelt því fram, að með því að hafa hana of lága, væri ranglega viðhaldið sköttum, sem almenningur yrði að greiða. En jeg álít, að ef tekjuhliðin væri hækkuð og þó að ríkið fengi nóg upp í þá hækkun, þá yrði enginn tekjuafgangur, og meðan svo er, er ekki hægt að lækka skatta. Það er einmitt það, sem safnast, sem gefur tilefni til lækkunar skattanna. Jeg er því alveg gagnstæðrar skoðunar í þessu atriði. Hv. þm. skoraði á nefndina að taka tekjuhliðina enn til athugunar, en það mun hún ekki gera, heldur standa fast við sínar till. Mjer skildist háttv. þm. telja enga hættu að samþykkja allar brtt., sem liggja fyrir frá einstökum þm., og miðar hann það auðvitað við það, hve tekjuhliðin megi hækka, og þó er hækkunin samkvæmt áliti hans ekki meiri en 130 þús., en mjer skilst að hún verði yfir 250 þús., fram yfir till. fjvn., og er hann þá ekki sammála hv. 2. þm. Rang., eftir því sem hann gerði ráð fyrir að fjhn. ætlaði að gera till. um tekjuhliðina. Og veitir heldur ekki af þeirri upphæð móti gjaldahækkunarlöngun hv. þm. Af öllu þessu sjest enn, hve mikið skaðræði það gæti verið, ef fjhn. ætti líka að gera till. um tekjuhliðina. Hæstv. atvrh. gerði engar athugasemdir við gerðir nefndarinnar. En jeg vil minnast á eitt atriði, er hann nefndi, að hann taldi rjett að bíða með byggingu loftskeytastöðva, sem ætlast hefir verið til að bygðar yrðu. Jeg veit auðvitað ekki, hvað vakir fyrir hæstv. stjórn. en jeg held, að það geti verið álitamál, hvort þetta væri rjett. Þessar stöðvar gefa vitanlega ekki beinar tekjur, en geta hinsvegar orðið að mjög miklu gagni fyrir hin afskektu hjeruð, sem um er að ræða, eins og t. d. Grímsey. Upphæðin er líka tiltölulega lítil, sem til þessa þarf, eða 30 þús. krónur til þriggja stöðva. Jeg ætla ekki að fara að deila við hæstv. atvrh. um brúargerðir; jeg er vanur að verða útundan fyrir mitt kjördæmi. Og þó að hann geri lítið úr loforðum vegamálastjóra, þá mega þeir deila um það, hvor nær standi rjettlætinu.

Þá er næstur háttv. þm. N.-Ísf., frsm. samgmn. Áliti samgmn. hefir ekki verið útbýtt fyr en á þessum fundi, og sje jeg, að háttv. þm. hefir skrifað á miða fyrir framan mig, að hann taki brtt. aftur til 3. umr. Jeg þarf þess vegna ekki að tala frekar um þær, en vil taka það fram, að það er óviðfeldið, að háttv. þingmenn hafi mjög nauman tíma til að átta sig á brtt. þeim, sem fram koma, og er jeg þess vegna háttv. þm. þakklátur fyrir, að hann hefir tekið brtt. þessar aftur nú.

Hv. þingmönnum N.-M.(ÁJ og HStef) þarf jeg engu að svara. Þeir háttv. þm. N.M. flytja brtt. um að hækka liðinn til brúargerða um 24 þús. kr., og skal þeirri viðbót varið til brúar á Selá í Vopnafirði. Þessi brú er alveg ný í sögunni; jeg hefi hvergi sjeð hana á áætlunum talda meðal þeirra brúa, sem í ráði er að hyggja á næstunni. Um þessa till. eru óbundin atkv. frá fjvn., en hún lítur svo á, að það gæti valdið glundroða, ef hún yrði samþykt, og hætt við að fleiri kæmu á eftir. Jeg býst við, að jeg neyðist þá til að flytja brtt. fyrir mitt kjördæmi, sem jeg mun annars ekki koma fram með.

Þá er hv. þm. V.-Sk. (JK). Hann flytur brtt. um að hækka styrkinn til sjúkraskýla og læknisbústaða um 15 þús. krónur, og á þessi hækkun að vera lokastyrkur til skýlanna í Vík í Mýrdal og í Borgarfirði. Nefndin hefir enga brtt. gert um þetta, bæði eftir till. landlæknis og vegna þess að ekki lágu fyrir hreinir reikningar um byggingarkostnað þessara skýla. Nefndin lítur líka svo á, að það geti ekki skaðað þessi hjeruð, þó að þessi styrkveiting dragist t. d. til næsta þings. Landlæknir hefir upplýst, að í Borgarfirði er margt í ólagi og að í Vík hefir kostnaðurinn orðið miklu meiri en gert var ráð fyrir. Nefndin verður að halda fast við sínar till. og álítur ekki, að það geti skift nokkru máli fyrir þessi hjeruð, þó að þetta dragist. Auk þess leggur nefndin áherslu á það, að hreinir endanlegir reikningar um byggingu þessara skýla liggi fyrir, þegar ákveða á lokastyrk til þeirra.

Þá á háttv. 2. þm. Árn. (JörB) brtt. á þskj. 230, um 1200 króna utanfararstyrk til Óskars læknis Einarssonar. Nefndin hefir óbundin atkvæði um þennan lið. En jeg skal geta þess, ef þessi styrkur verður samþyktur, þá er hætt við að fleiri slíkir komi á eftir. T. d. er læknirinn í Blönduóshjeraði, sem er mjög góður og mikils metinn læknir, á ferð utanlands, og hefir frí frá október til ágústmánaðar. Jeg viðurkenni, að það er nauðsyn á því, að læknar sigli öðruhvoru til þess að kynna sjer nýjungar á sviði læknavísindanna, svo ef þessi till. verður samþykt, þá er óumflýjanlegt, að fleiri komi í kjölfarið.

Næst kem jeg að hv. þm. V.-Ísf. (ÁÁ), er mælti með brtt. frá fjhn. á þskj. 245, um að fella niður skólagjöldin. Þessari till. er nýlega útbýtt, og hefir því fjvn. engar ákvarðanir um hana tekið, og vildi jeg mælast til þess, að hún yrði tekin aftur til 3. umr., svo fjvn. eigi kost á að athuga hana. En frá mínu sjónarmiði þykir mjer till. athugaverð, þar sem ef ríkisskólarnir fella niður skólagjöldin, munu þau verða óvinsæl hjá öðrum skólum, en þó oft nauðsynleg til þess að ná inn fje móti því, er ríkissjóður leggur til og gerir að skilyrði, og verður því til þess að gera skólum þessum fært að starfa.

Þá á sami háttv. þm. brtt. á þskj. 230, um að veita 20 þús. kr. til vegagerðar milli Ísafjarðar og Önundarfjarðar. Nefndin verður að leggja á móti þessari till., þar sem hjer er um sýsluveg að ræða, en tilætlunin með þessu fjárframlagi er, að ríkissjóður kosti hann, sem þjóðvegur væri. Það er leitt, að þessi vegur hefir ekki fengist tekinn í þjóðvegatölu, en eins og þetta liggur fyrir getur nefndin ekki mælt með því. Þá mundi koma látlaus straumur líkra fjárbeiðna á eftir frá öðrum.

Þá er að minnast á nýjan lið við 13. gr. B. II. a. 3, um að veita 15 þús. kr. til Vesturlandsvegar. Nefndin er ókunnug þessu máli; það hefir ekki legið fyrir henni og hún hefir ekki treyst sjer til að vera með því, en er óskift á móti.

Þá er næstur hv. þm. Ak. (BL). Jeg þarf engu að svara viðvíkjandi veginum að Kristsnesi. Jeg hafði skilið það svo, ef Eyjafjarðarbrautin að Kristsnesi yrði tekin í þjóðvegatölu, yrði ekki gerð krafa til þess, að þessi vegur væri kostaður af ríkissjóði. En nú er sýnilegt, að hv. þm. Ak. (BL) og hv. 2. þm. Eyf. (BSt) vilja fá þetta hvorttveggja. Annars skal jeg taka það fram, að fjvn. hefir óbundin atkvæði um þetta.

Þá kem jeg að brtt. á þskj. 248, frá meiri hluta sjútvn., sem nýlega hefir verið útbýtt, þess efnis, að veita 25 þús. kr. til hljóm- og ljósdufla á Valhúsgrunni og Siglufjarðarhellu, 2/3 kostnaðar, sem greiðast eiga úr ríkissjóði. Um þessa till. hefir ekkert verið rætt í nefndinni, og vil jeg því skjóta því til hv. flm., hvort þeir vilja ekki taka hana aftur til 3. umr.

Jeg held, að það sjeu nú ekki fleiri till., sem jeg þarf að tala um, og get jeg því lokið máli mínu. Vænti jeg, að jeg hafi ekki gefið mörgum tilefni til þess að taka til máls, þar sem jeg hefi farið mjög hóflega í sakirnar.