15.03.1926
Efri deild: 28. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

12. mál, kynbætur hesta

Einar Árnason:

Það gleður mig, að brtt. mín virðist hafa allmikið fylgi í deildinni, þar sem mjer skilst, að öll hv. landbn. sje henni fylgjandi og sömuleiðis hv. 4. landsk. (IHB), sem þó vildi ekki hjer á dögunum leyfa konum að hafa rjett til þess að skorast undan kosningu í sveitar- eða bæjarstjórn. Þetta sýnir, að hv. 4. landsk. telur, að til sjeu störf, sem rjett sje, að konur geti skorast undan að vinna. Þetta er auðvitað alveg rjett. Það má gera dálítið upp á milli þess, hvort starfað er í sveitarstjórn eða kynbótanefnd, enda hefir þessi brtt. miklu meiri byr hjer í deildinni en brtt. mín á dögunum, um að konur skyldu hafa rjett til þess að skorast undan því að taka við kosningu í sveitarstjórn, og var hún þó fyllilega á rökum bygð.

Hv. 1. landsk. (SE) sagði, að kvenþjóðinni væri með brtt. minni sýnd lítilsvirðing og vantraust. Þessu vil jeg neita ákveðið. (SE: Jú, vantraust). Konur hafa haft þann rjett áður að mega skorast undan slíkri kosningu fram yfir karlmenn. Og eins og jeg tók fram um daginn í umr. um kosningar í málefnum sveita, þá álít jeg óholt og ósanngjarnt gagnvart heimilunum að skylda konur til þess að fara að heiman hvernig sem ástæður eru heima fyrir. Og því betur eru það fleiri menn, sem er svo ant um velferð heimila sinna og kvenna, að þeir vilja, að þær sjeu lausar við störf, sem þeim eru ógeðfeld. Og það verð jeg að segja, að jeg tel sorglega ástatt fyrir því heimili, er húsmóðirin er annan daginn á sveitarstjórnarfundi, en hinn daginn að vasast í kynbótanefndinni.