15.03.1926
Efri deild: 28. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 926 í B-deild Alþingistíðinda. (424)

12. mál, kynbætur hesta

Sigurður Eggerz:

Jeg hóf ræðu mína áðan með því að benda á það, að hjer væri um miklu minna starf að ræða heldur en að eiga sæti í bæjarstjórn eða hreppsnefnd. Jeg geri ráð fyrir því, að þeir, sem skipa þessa kynbótanefnd, verji til þess miklu minna af starfstíma sínum en hinir, sem í hreppsnefnd eru. (GuðmÓ: Það er a. m. k. óþarfi að halda fund í kynbótanefnd annanhvern dag !). Það er því augljóst, að svo framarlega sem á að skylda konur til þess að eiga sæti í bæjarstjórn — sem er afarmikið erfiði — þá er beinlínis hlægilegt að gera undanþágu í þessu efni. Slíkt mætti næstum skoða sem tepruskap. Hinsvegar játa jeg það, að því fylgir mikið erfiði að sitja í bæjarstjórn eða hreppsnefnd. Og þó jeg sje frjálslyndur og vilji leyfa þetta, þá er jeg þess viss, að mjer mundi þykja það persónuleg óþægindi, ef mín kona væri skylduð til að eiga sæti í bæjarstjórn. Jeg vona, að hv. deild sýni hjer fulla samkvæmni. En þá er hún sjálfri sjer fyllilega samkvæm, ef hún fellir þessa brtt. og lætur sömu reglu gilda um þessa nefnd og hreppsnefnd eða bæjarstjórn. — Viðvíkjandi því, sem hæstv. atvrh. (MG) sagði, að jeg mundi líklega segja af mjer þingmensku, ef brtt. yrði samþykt, get jeg sagt hæstv. atvrh. það, að mjer dettur alls ekki í hug að gera stjórninni slíkan greiða.