15.03.1926
Efri deild: 28. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 929 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

12. mál, kynbætur hesta

Guðmundur Ólafsson:

Jeg vil benda á það, að mjer þótti koma fram ósamræmi hjá hv. frsm. landbn. (ÁH) annarsvegar og hæstv. atvrh. (MG) hinsvegar viðvíkjandi kostnaði við kynbótafola. Hv. frsm. bjóst við, að hægt yrði að komast hjá því, að kynbótafoli yrði mjög dýr, en hæstv. atvrh. gerði ráð fyrir, að aðeins bestu folar yrðu valdir til kynbótanna. En ef svo verður, sem raunar er sjálfsagt, þá fæ jeg ekki annað skilið en að verðið muni verða í einhverju venjulegu hlutfalli við gæðin, nema það verði tekin í þessi lög einhver ný regla í viðskiftum.

Þá er jeg hálfhissa á því, hvernig gengur með brtt. hv. 1. þm. Eyf., og eins furðar mig talsvert á því, að hæstv. atvrh. skuli ekki geta fundið samband milli þessa mál, og kosningalaganna í málefnum bæja og sveita, því hjer er beinlínis gert ráð fyrir því í frv. sjálfu, að sömu reglur gildi um kosning í kynbótanefnd og hreppsnefnd, sem líka er rjett. Því þá fer nú samræmið í sveitakosningum að verða lítið, ef það eiga að gilda sjerstakar reglur fyrir kosningu í smánefndir innan sveitar, eins og t. d. kynbótanefnd. Þá mætti ætla að ekki væri minni ástæða til þess að hafa sjerstök kosningaskilyrði fyrir ýmsar aðrar nefndir, svo sem fræðslunefnd, forðagæslunefnd o. s. frv. En þá sem sagt förum við að færast nokkuð langt frá því marki, sem stefnt var að með endurskoðun sveitarstjórnarlaganna, en það var einmitt heildarsamræmi; og sannast þá orð þeirra, sem halda því fram, að slíkt samræmi muni aldrei nást.