15.03.1926
Efri deild: 28. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 932 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

12. mál, kynbætur hesta

Einar Árnason:

Jeg tók það fram við 2. umr., að jeg hefði sýnt hv. frsm. (ÁH) till. mína, og tók hann það þá fram, að hann gæti ekki sjeð neitt athugavert við hana, nema ef vera skyldi, að það væri álitamál, hvort ákveða skyldi takmark gjaldsins 8 eða 10 kr., og var hann heldur á því að setja það 10 kr. Þetta veit jeg, að hv. frsm. kannast við. Það má vera, að hann hafi eftir á sjeð sig um hönd. En nú fór svo við 2. umr., að brtt. var samþykt, þó að hv. 1. þm. Rang. (EP) mælti fast á móti, og hafði jeg þó ekkert sjerstakt gert til þess, að afla henni fylgis. Að till. mín var samþykt, getur því ekki stafað af öðru en því, að háttv. þdm. hafi þótt þau rök, sem studdu till. mína, miklu betri en mótmæli hv. 1. þm. Rang.

Ennfremur var eitt atriði í ræðu hv. 1. þm. Rang., að þessi lög væru aðallega sett með þau hjeruð fyrir augum, þar sem hrossarækt væri mest. Þetta er ekkert annað en fjarstæða. Auðvitað eru lögin sett fyrir alt landið, sem sjest af því, að frv. mælir svo fyrir, að kynbótanefnd skuli vera í hverjum hreppi og kynbótafoli í hverjum hreppi á landinu.