10.04.1926
Efri deild: 47. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

12. mál, kynbætur hesta

Sigurður Eggerz:

Mjer þykir vera risinn hjer upp allmikill úlfaþytur út af jafnmeinlausri ósk og þeirri, að málið sje tekið út af dagskrá til frekari athugunar. Jeg bjóst við nál., og því er jeg ekki viðbúinn að koma með brtt. nú.

Hæstv. atvrh. blandaði sjer inn í umræðurnar og hjelt því fram, að ekki væri óalgengt, að komið væri með munnleg nál. Þingsköpin gera þó víst ekki ráð fyrir slíku, og jeg sje ekki ástæðu til að innleiða þann sið. Jeg vil vekja athygli á því, sem nú er talsvert farið að tíðkast, að nál. er skilað, sem ekki eru nema 1–2 línur. Jeg tel slíkt lítið upplýsandi fyrir málin.

Að því er snertir viðaukann við 2. gr., þá má sjálfsagt koma þar með nýja brtt. Það atriði skiftir miklu máli fyrir þá, sem líta svo á, að þar sje um „principielt“ atriði að ræða. — Mjer þykir kenna nokkuð mikils ákafa hjá íhaldsmönnum um að þetta mál sje ekki tekið af dagskrá. Auðvitað geta þeir ráðið því eins og öðru. Það hafa stundum verið brotin hjer þingsköp til að koma þeirra mönnum í nefndir. Þetta er víst áframhald af þeirri stefnu.