29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 184 í B-deild Alþingistíðinda. (45)

1. mál, fjárlög 1927

Jakob Möller:

Aðeins örfá orð út af því, sem hæstv. fjrh. (JÞ) sagði viðvíkjandi athugasemdum mínum. Hann sagði viðvíkjandi því, að stjórnin hefði getað felt niður gengisviðaukann á vörutolli, að fjhn. Nd. hefði komist að þeirri niðurstöðu, að til þess að fella hann niður þyrfti lagaboð. Það er rjett, að fjhn. leit svo á, að úr því að þingið væri komið saman, þá færi betur á því, að svo væri. En jeg sagði aðeins, að stjórnin mundi ekki hafa verið áfeld, þótt hún hefði felt hann niður fyrir þing í sambandi við hækkun krónunnar sl. haust, og það því síður, sem vafi leikur á, hvort lagaboð þurfi til þess að fella gengisviðaukann niður, er lögin um hann eru heimildarlög. Hæstv. fjrh. sagði, að það þyrfti að áætla tekjur fjárlaganna varlega og væri best að áætla þær sem lægst, því að gjöld færu altaf fram úr áætlun. Það ætti nú að vera hægur hjá að áætla gjöldin nokkurnveginn nákvæmlega. En jeg álít óforsvaranlegt að áætla ekki þau gjöld líka, sem greiða verður samkvæmt sjerstökum lögum, þótt ekki sjeu þau fjárlög. Að öðrum kosti er ekki hægt að gera nákvæma fjárhagsáætlun. Hæstv. fjrh. kvað það ekki varlegt að hækka tekjuáætlunina meira en gert hefir verið, jafnvel ekki meira en gert er í frv. stjórnarinnar, því að ekki væri líklegt, að árið 1927 yrði betra tekjuár en árið 1924, en þá hefðu ekki verið meiri tekjur en gert væri ráð fyrir í frv. stjórnarinnar. Nú er við þetta að athuga, að árið 1924 naut ekki gengisviðauka nema að litlu leyti og að árið 1924 var ekki eins gott tekjuár og afkoman benti til. Árin tvö á undan 1927 eru og mjög ólík tveimur árunum á undan 1924, en það hefir mikla þýðingu, hvernig árin á undan eru. Af þessu hygg jeg, að ekki muni vera óvarlegt að gera ráð fyrir því, að árið 1927 verði betra en 1924, enda skildist mjer það nú á hæstv. fjrh., að hann væri ekki á móti hækkunum þeim, er fjvn. hefir lagt til.

Hið eina, sem jeg get fengið út, að vaki fyrir honum með því að áætla tekjurnar mjög lágar, er það, að þá verði sá tekjuafgangur, sem síðar megi verja til þess að lækka skattana; að sjóðsöfnun þeirri, sem vænta má að leiði af of lágri tekjuáætlun, verði að einhverju leyti varið til þess að draga úr skattabyrði þjóðarinnar. En við þetta er það að athuga, að of lág tekjuáætlun gerir það að verkum, að mjög verður erfitt að fá þingið til að fallast á nokkra skattalækkun. Nei, jeg held áreiðanlega, að þegar um er að ræða að lækka skattabyrðina, takist það betur og sje að mestu undir því komið, að fjárlögin sjeu rjett úr garði gerð; að áætlanirnar sjeu eins nærri því að vera rjettar og hægt er að gera þær. Jeg held því, að þetta sje mest undir því komið, hvernig fjárlögin líta út, og þegar skattalækkunin var til umræðu í fjhn., varð það þess vegna að samkomulagi að fresta ákvörðunum í því efni, þar til 2. umr. fjárlaganna væri um garð gengin, svo hægra væri að gera sjer hugmynd um jafnvægið á fjárhag ríkissjóðs, er sýnt væri, hvernig fjárlögin mundu líta út hjá þinginu. Ef jafnvægi helst á tekjuáætluninni, en gjöldin fara fram úr áætlun stjórnarinnar, verður annaðhvort enginn tekjuafgangur eða jafnvel tekjuhalli, og þá verður erfitt að fá nefndina til að gera tillögur um lækkun á sköttum, því þá yrði tekjuhallinn orðinn meiri. Jöfnuður á fjárlögunum segir til um það, hvað ríkissjóður þarf að fá í tekjur, og við það verður að miða.

Háttv. frsm. fjvn. (ÞórJ) hafði það eftir mjer, að jeg teldi það ekki hættulegt, þó að allar brtt. á þskj. 230 yrðu samþyktar. Mjer taldist svo til, að það yrði um 280 þús. kr. gjaldaauki; en jeg taldi alls ekki rjett, að þær yrðu allar samþyktar, en jeg sagði, að þó að þær yrðu allar samþyktar, yrði það ekki hættulegt fyrir jöfnuðinn á landsreikningnum. Þetta bygði jeg á áætlunum fjhn. og fjvn. Fjhn. hafði áætlað, að hækka mætti tekjubálkinn um 450 þús. kr., en fjvn. 310 þús. kr. Munar á þessu ekki nema 140 þús., eins og hv. form. fjhn. tók fram. En við þetta er það að athuga, að form. fjhn. hefir ekki viljað viðurkenna áætlun fjvn. Fjvn. hefir sem sje sumpart hækkað aðra liði en fjhn., suma meira en fjhn., en fjhn. telur aftur óhætt að hækka liði, sem fjvn. hefir ekki lagt til að hækka.

Að svo stöddu sje jeg ekki ástæðu til að fara út í einstaka liði áætlananna, en ef treysta má áætlun fjvn. um að óhætt sje að hækka þá tekjuliði, sem hún hefir gert till. um, verð jeg að telja óhætt, samkvæmt niðurstöðu fjhn. um aðra liði, að hækka tekjurnar enn um 275 þús. kr., en það svarar sem næst til brtt. á þskj. 230.

Það er mín skoðun, að það sje jafnskylt að áætla tekjurnar sem næst því, er þær munu verða, alveg eins og útgjöldin. Það gilda alveg sömu reglur um hvorttveggja. Það er nauðsynlegt að hafa sem rjettasta áætlun um fjárhag ríkisins, til þess að þingið geti farið sem næst því rjetta um allar skattaálögur. Sje tekjuáætlunin of lág, verða skattarnir of háir, en það er óforsvaranlegt, að skattabyrðin sje þyngri en þörf er á. Jeg er í þessu efni í algerðri andstöðu við fjölda manna, sem hrósa sjer af því að vera gætnir og hyggnir fjármálamenn og þykjast vilja fara að öllu varlega. Jeg tel það alls ekki gætilega að verið eða rjettilega, samfara töluverðri hækkun á gengi peninga okkar, sem kemur alltilfinnanlega hart niður á ýmsum atvinnuvegum, að hafa um 5 milj. kr. tekjuafgang á landsreikningnum. Að vísu er það gott fyrir ríkissjóðinn að fá þetta fje, en það er fullnærri gengið atvinnuvegunum að taka það af þeim; þeir hafa orðið að þola hart til þess að fita ríkissjóðinn.

Söfnun í ríkissjóð hefir tvær hliðar. Það getur orðið hvatning til eyðslu á ýmsum sviðum, og væri því rjettara að athuga, hvort ekki væri affarasælla að fara gætilega í þessu efni.

Háttv. frsm. fjvn. tók alldauflega í það að ljetta af skólagjöldunum. Skólagjöld eru, eins og þau eru nú tekin, afskaplega ranglát gjöld. Þau eru tekin af fátækum sem ríkum í bæjunum, þar sem skólarnir eru, en utan skólabæjanna sleppa menn algerlega við þau, ríkir sem fátækir, jafnvel auðmenn á okkar mælikvarða. Jeg veit til þess, að margir hafa orðið að taka allnærri sjer til að geta int þessi gjöld af hendi og hafa jafnvel orðið að fá fje til þess að láni. Hinsvegar er þessi tekjuliður gersamlega einskis virði fyrir fjárhag ríkissjóðs. Jeg man ekki betur en að hæstv. fjrh. hafi upplýst, að hann hafi síðastl. ár orðið um 6 þús. kr., en var áætlaður 15 þús. kr. Hvort heldur sem er, hefir þetta engin minstu áhrif á hag ríkissjóðs, en þetta er mjög ranglátt gjald og mjög tilfinnanlegt þeim, sem eiga að greiða það.