13.04.1926
Efri deild: 49. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

12. mál, kynbætur hesta

Einar Árnason:

Þegar þetta frv. var hjer til umræðu fyrir nokkrum dögum, og var þá nýkomið frá hv. Nd., valdi meiri hluti þessarar hv. deildar hið góða hlutskiftið, að slá skjaldborg utan um rjettindi kvenna. En nú kemur það í ljós, að tveir háttv. þm. eru hjer á sveimi í kringum skjaldborgina og eru að leitast við að fá færi til að rjúfa hana. Það eru þeir háttv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) og háttv. 1. landsk. (SE). Nú hafa þeir ekið fram tveimur byssum og hafið skothríð á þetta vígi kvennanna. Að vísu bilaði annað skotvopnið mjög fljótt, og þarf því varla að búast við miklum árangri af þessari skothríð, því jeg býst ekki við, að meiri hluti þessarar hv. deildar bregðist konunum á þessari hættustund. Það, sem mjer þykir athugaverðast við þetta framferði þessara tveggja hv. þm., er það, að mjer virðist, sem þeir hafi snúið við rökunum í þessu máli. Þeir þykjast vera útverðir kvenrjettindanna á voru landi, en í sömu andránni gera þeir tilraun til að svifta konur þeim rjetti, sem þær hafa haft fram að þessu. Jeg vil því ráðleggja þessum háttv. þm. báðum að slíðra brandinn og hætta við þessar árásir á konurnar, því að jeg tel þetta aðeins þýðingarlaust erfiði fyrir þá; þeir eyða skotfærum sínum til einskis, konurnar eru komnar inn í þá skjaldborg í þessari háttv. deild, sem mun reynast óvinnandi vígi, hvernig sem til verður leitað við þær.