13.04.1926
Efri deild: 49. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (461)

12. mál, kynbætur hesta

Eggert Pálsson:

Eins og menn rekur minni til, hófust þessar umræður með hörðum ávítum til landbn. fyrir það, að hún hefði ekki gefið út framhaldsnál. um þetta mál. En nefndin vísar þessu ámæli á bug. Þetta skeður oft, að nefndir gefa ekki út framhaldsnál., er þær hafa ekki neitt sjerstakt að athuga við málin. Hjer er því fullkomið fordæmi fyrir þessu. Jeg get tekið það fram, ef ámæli fyrir þetta væri rjettmætt, mundi það ekki lenda á nefndinni, heldur á hæstv. forseta og skrifstofustjóra Alþingis, sem tóku mál þetta á dagskrá að nefndinni fornspurðri. En nefndin hafði enga ástæðu til að þykkjast, þó að þetta væri gert, því að hún var búin að athuga málið og komin að niðurstöðu um, að breytingar hv. Nd. væru þess eðlis, að nefndin gat ekki fundið ástæðu til að vera á móti þeim. Landbn. lýsti því líka hjer í deildinni, að hún teldi breytingar hv. Nd. heldur til bóta en hitt. Það er sennilegt, að það hafi vakað fyrir háttv. andmælendum þessa frv., að þeir hafi ætlað að athuga nánar þessar breytingar Nd., er þeir ljetu taka málið af dagskrá. En viti menn, nú þegar þeir eru búnir að fá frest til að athuga málið, sjá þeir ekkert annað athugavert en það, sem þessi eina brtt. fer fram á. Það sem hv. Nd. hafði gert, er nú talið fremur til bóta. Til hvers er þá þessi hvellur ger? Til þess eins að fá deildina til að jeta ofan í sig og fella burt 2. málsgr. 2. gr. frv. Brtt. hv. 1. landsk. er hrein og bein; þar leikur ekki á tveimur tungum, hver tilgangurinn er. En hin brtt., frá hv. þm. A.-Húnv., liggur ekki eins opin við. Hún er svo lævíslega orðuð, að enda þótt hún stefni að sama marki að síðustu og brtt. hv. 1. landsk., tókst þó að koma henni að hjer, en hin var úrskurðuð frá. Hvort hv. deild telur sjer sæma að jeta þetta ofan í sig, læt jeg mjer standa á sama. Nefndin á ekki sök á því, þó að það verði gert. Landbn. telur það ekki móðgun við sig, þó svo fari. En hitt er meira spurnarmál, hvort hv. deild telji sjer sæma að fella við 3. umr. það, sem hún samþykti við 2. umr. Þá er að athuga það, að ef þessi brtt. verður samþykt, þá á frv. að fara hjeðan í Sþ. Þá verður manni að spyrja: Er málið þess vert, vegna þessa eina atriðis, sem nú ber á milli, að stofna til fundar í Sþ.? Það er ljóst, að ef málið fer í Sþ., verður ekki annað unnið við það en lengri umr., og svo verður það samþykt eins og hjer síðast við 3. umr. Jeg lít svo á, að ef telja á þetta fulla ástæðu til að hlaupa með málið í Sþ., er síst að vænta, að það verði vegsauki fyrir þingið.