13.04.1926
Efri deild: 49. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (467)

12. mál, kynbætur hesta

Jónas Jónsson:

Hæstv. atvrh. (MG) fjell frá því að reyna að verja málsstað sinn, og mjer skildist hann gangast við því, að það er hann, sem hefir átt aðalþáttinn í þeim stefnubreytingum, sem hjer hafa komið fram. Þetta er sýnilegt af þingtíðindunum, og veit jeg því, að hæstv. atvrh. ætlar að láta þar við sitja og ætlast til, að flokksmenn sínir geri það af flokksfylgi að fylgja þessu. Hæstv. ráðh. sagði, að kvenfólkið vildi fá ríkisskóla. Þetta er rjett að vissu leyti, ef dæma má eftir þeim eina fulltrúa kvenþjóðarinnar hjer í hv. deild. Í fyrra vildi hún fá einn ríkisskóla, en ekki Blönduósskólann. (IHB: Jú, á sínum tíma). Í öðru lagi vil jeg benda á, að jeg hefi tvívegis flutt frv. um ríkisskóla á Staðarfelli, en í bæði skiftin hefir það verið drepið af þeim sömu mönnum, sem nú eru að berjast fyrir ríkisskóla.

Þá talaði hv. 5. landsk. (GunnÓ) um það, hvort eigi að þvinga konur inn í kynbótanefnd, og færði hann allgóð rök fyrir því, að það sje engin bót fyrir þær, heldur þvert á móti. Jeg vil benda hv. þm. á, hvernig þetta „princip“ hefir verið sett hjer inn. Hv. 4. landsk. sagði, að verið væri að brjóta lög og rjett, ef konur fengju að skorast undan því að vera í hreppsnefnd. Deildin hefir því ekkert annað fyrir sjer frá kvenfólksins hálfu en að það óski eftir þessari þvingun. Með kosningalögunum er slegið fastri meginreglu, og hv. 4. landsk. hefir brotið sitt „princip“ með atkvgr. sinni við 3. umr. málsins.

Þar sem hv. 5. landsk. talar um skoðanaskifti, gleymir hann því, að jeg hefi nefnt 2 dæmi um, hvernig samherjar hans hafa snúist síðan í fyrra, og jeg gæti nefnt fleiri dæmi, ef á þyrfti að halda, um það, hvernig bestu mennirnir, sem hv. 5. landsk. áleit vera, snerust með fárra daga millibili.

Mjer finst augljóst, að einmitt tillaga hv. þm. A.-Húnv. er til að binda enda á þar villigötur, sem hv. deild hefir lent inn á í þessu máli. Jeg treysti því, að hún verði samþykt og að hv. 5. landsk. sjái, að hann á að snúa aftur til síns upprunalega máls.