08.04.1926
Neðri deild: 48. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

9. mál, veitingasala, gistihúshald o. fl.

Frsm. (Árni Jónsson):

Jeg þarf ekki að hafa langa framsögu í þessu máli. Frv. er upphaflega borið fram af hæstv. stjórn, hefir verið athugað í háttv. Ed. og þar gerðar á því smávægilegar breytingar, er teljast verða fremur til bóta. Frv. er fram borið til þess að bæta úr vantandi löggjöf í þessu efni, því eins og sakir standa, geta allir sett á stofn gistihús án nokkurs leyfis, eða án þess að neinar kröfur sjeu til þeirra gerðar um það, að þeir sjeu slíku starfi vaxnir. Þykir ekki rjett nú orðið, að til þessa starfs veljist allra handa óvalinn lýður, sem enga kunnáttu hefir í þessu efni og engin skilyrði til að gegna starfi sínu svo vel sje.

Eftir frv. þessu þurfa menn leyfi lögreglustjóra til þess að setja upp veitingasölu, gistihús eða annað í því sambandi, og er leyfisbrjef þetta sniðið eftir kröfum þeim, sem gerðar eru til þeirra manna, er kaupa borgarabrjef. Þeir þurfa að vera fjár síns ráðandi, mega ekki hafa gerst sekir um neina glæpi og hafa meðmæli bæjarstjórnar eða hreppsnefndar, þar sem þeir ætla að reka atvinnuna.

Þá eru einnig í frv. ákvæði um greiðslu til ríkissjóðs fyrir leyfi til þess að mega stunda þessa atvinnu. Fyrir almenna veitingasölu greiðast 150 kr., en fyrir leyfi til gistihúshalds 200 kr. og fyrir tækifærisveitingar frá 5–50 kr. Undanþágur um slíkar veitingar getur lögreglustjóri gefið, þegar sjerstaklega stendur á, eins og t. d. ef ágóða af veitingunum skal verja til þjóðþrifa eða líknarstarfsemi, eða ef fátækir menn eiga hlut að máli.

Þá eru í frv. sektarákvæði, frá 50–1000 kr., fyrir að reka gistihús eða hafa um hönd veitingar, er leyfi þarf til, án þess að hafa fengið til þess leyfi samkv. lögunum. En brot gegn ákvæðum frv. um áfengisveitingar varða sektum frá 50–2000 kr. Í frv. eins og það kom frá hæstv. stjórn, var lágmark sekta fyrir áfengisveitingar 200 kr., en háttv. Ed. færði það niður í 50 kr.

Það er óþarfi að taka það fram, að þó að seld sje gisting og ferðamönnum seldur ýmiskonar beini á sveitabæjum, þá þarf ekki til þess leyfi hlutaðeigandi yfirvalda.

Að endingu skal jeg geta þess, að þó nefndin hafi undirritað nál. án nokkurs ágreinings, þá munu þó væntanlegar brtt. við 3. umr. Þess vegna mætti ætla, að ljúka mætti þessari umr. nú og láta ágreiningsatriðin bíða þangað til brtt. liggja fyrir.