15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (486)

9. mál, veitingasala, gistihúshald o. fl.

Jón Baldvinsson:

Hv. frsm. allshn. (ÁJ) gat þess við 2. umr. þessa máls, að nefndin væri ekki sammála, þó ekki kæmu brtt. frá hendi nefndarmanna. Nú höfum við tveir nefndarmenn borið fram nokkrar brtt., og hefði jeg raunar kosið, að þær væru bæði fleiri og ítarlegri, en við þetta verður þó að sitja.

Fyrri brtt. á þskj. 327 snertir það, að við teljum þurfa leyfi til þess að reka ballskák (billiard), ef sá rekstur stendur ekki í sambandi við gistihúshald eða greiðasölu.

Jeg hygg, að nefndin sje ekki fráhverf þessari breytingu, þó að það yrði úr, að við flyttum hana tveir, af því að við höfðum aðrar brtt., er mættu andstöðu í nefndinni.

Brtt. á þskj. 346 er þess efnis, að bannað skuli að selja unglingum innan 18 ára aðgang að þessum leik. Þá er brtt. á þskj. 345, sem ákveður sektir, ef ballskák er rekin án leyfis, og auk þess er 15. gr. breytt í samræmi við þetta.

Þá kem jeg að þeirri brtt., sem jeg skoða aðalbreytinguna. Það er síðari brtt. á þskj. 327, við 6. gr. frv. Hún felur í sjer, að ef maður hefir verið dæmdur sekur um brot á lögum eða reglugerðum um áfengi eða undirgengist sektargreiðslu, þá hafi hann fyrirgert leyfi sínu til að hafa á hendi veitingasölu eða reka gistihús. Það ætti raunar að vera skilyrði fyrir leyfisveitingu, að hlutaðeigandi hefði ekki gert sig sekan um slík brot. En það má ekki minna vera en að þeir, sem sekir gerast, missi rjettinn. Eru þau ákvæði engu harðari en þau, er samþykt voru gagnvart læknum á síðasta þingi fyrir óleyfilega útgáfu áfengislyfseðla. Það hefir sýnt sig, að ekki veitir af sterkum ákvæðum um veitingahús, því þau er altaf verið að sekta aftur og aftur fyrir brot á áfengislöggjöfinni, enda er sagt, að sumir veitingasalar sjeu farnir að halda nokkurskonar „tugthúsvinnumenn“ til þess að sitja af sjer sektirnar fyrir þá, svo þeir geti haldið áfram „atvinnu“ sinni. Annars held jeg, að lögregluvaldið gæti gengið strangara eftir en gert er, að sumum þessum holum sje lokað.

Eins og jeg hefi tekið fram, skoða jeg þetta aðalbrtt. og tel mikla nauðsyn á, að hún komist í lög. Hún fer líka í nokkuð svipaða átt og lög þau, sem samþykt voru á síðasta þingi um breytingu á aðflutningsbannslögunum, þar sem hert var á ýmsum ákvæðum um lækna o. fl. Jeg tel ekki minni nauðsyn á að setja ströng ákvæði um veitingamenn. Fel jeg svo þessar brtt. velvilja deildarmanna og vona, að þær verði samþyktar