11.02.1926
Neðri deild: 4. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 969 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

10. mál, bryggjugerð í Borgarnesi o. fl.

Atvinnumálaráðherra (MG):

Það frv., sem hjer liggur fyrir, er talsvert einstakt sinni röð. Aðalefni þess er að heimila landsstjórninni að láta gera allmiklar hafnarbætur í Borgarnesi, með framlagi úr ríkissjóði, er nemur talsvert meiru hlutfallslega en venjulegt er um hafnarbætur. Ástæðan til þess, að stjórnin stingur upp á þessu, er hin sjerstaka afstaða Borgarness sem áfangastaður fjölda ferðamanna.

Í ástæðunum fyrir frv. er nánar mikið að, hvað fyrir stjórninni vakir í þessu efni, og get jeg að mestu vísað til þess. En hjer vil jeg bæta því við, að stjórnin væntir þess, að hún hafi að baki sjer stuðning þingsins um það að gera það, sem unt er með kleifum kostnaði, til þess að flýta fyrir ferðum þeirra manna, sem fara nauðsynja sinna hingað af öllu því stóra svæði, sem í ferðatilliti má kalla uppland Borgarness.

Eftir því, sem nú er komið, er það ekki lítill fjöldi manna, sem árlega fer á skipi um Borgarnes til eða frá Reykjavík, og allar líkur eru á, að slíkt aukist fremur en minki. Það eru margar sýslur, sem nota þessa leið, eins og kunnugt er. Það eru ekki einungis Mýramenn og Borgfirðingar, heldur einnig Snæfellingar og Hnappdælir, Dalamenn, Strandamenn, Húnvetningar, Skagfirðingar, Eyfirðingar og jafnvel Þingeyingar. Og síðast má nefna Reykvíkinga.

Það þarf nú ekki að leiða getum að því, hversu mikils virði það er öllum þessum ferðamönnum, að greidd sje gata þeirra eftir föngum. Sú nauðsyn liggur í augum uppi, og vissulega er það mikils virði að geta stytt þann tíma, sem til ferðarinnar fer. Tíminn er peningar fyrir ferðamennina eins og aðra, og það er mikill tímaþjófur að þurfa 3, 4 eða 5 daga til að komast hjeðan norður í land. Ef bifreiðarvegur kemur alla leið úr Borgarnesi norður í land, er að sjálfsögðu mikið úr þessu bætt, en alls ekki til hlítar fyr en sjeð er fyrir, eftir því sem við verður komið, að ekki verði töf í Borgarnesi.

Stjórnin vill því líta á þetta mál þannig, að það sje allmikill samgöngubótaþáttur, og með tilliti til þess eru ákvæði frv. sniðin, en út í það atriði fer jeg ekki nánar við þessa 1. umr.

Jeg get hjer getið þess, að mjer hefir ósjaldan dottið það í hug, þegar jeg á ferðum mínum milli Norður- og Suðurlands hefi komið að Hvalfirði, að mikil samgöngubót og mikill ferðarflýtir væri að því að hafa eimferju af Hvalfjarðarströndinni yfir í Kjós eða á Kjalarnes og bifreiðaveg til beggja handa. Slík ferja þyrfti að vera þannig útbúin, að hægt væri að aka út á hana bifreiðum og teyma út á hana hesta. Að svo komnu máli geri jeg þetta ekki að tillögu minni, en ekki þætti mjer ólíklegt, að þetta kæmist í framkvæmd áður en mjög langir tímar líða, og hafnarbætur í Borgarnesi eru nauðsynlegar hvað sem þessu líður.

Að lokinni þessari umr. leyfi jeg mjer að óska, að frv. verði vísað til 2. umr. og til samgöngumálanefndar.