31.03.1926
Neðri deild: 45. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 974 í B-deild Alþingistíðinda. (499)

10. mál, bryggjugerð í Borgarnesi o. fl.

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg vildi aðeins skjóta fram einni aths. Þetta frv. er einn liður í því að bæta og tryggja samgöngur milli Norðurlands og Suðurlands, og er jeg því algerlega samþykkur. En svo vil jeg leyfa mjer að vekja athygli á, hvort ekki væri nauðsynlegt að gera meira en þetta. Jeg hygg, að sjálf leiðin um fjörðinn valdi oft mestum erfiðleikum. Hann er svo grunnur og þröngur, að ef verulega er að veðri og dimmviðri, má teljast ómögulegt að fara um hann. (PO: Þetta er misskilningur). Jeg vil skjóta því til hæstv. stjórnar, hvort ekki væri rjett að athuga, hvort ekki mætti bæta siglingaleiðina að einhverju leyti, t. d. með sprengingum. Jeg heyri, að hv. þm. Borgf. mótmælir því, sem jeg segi. En jeg er kunnugur þarna, því að jeg hefi mjög oft farið þar um, og vil þess vegna segja það, að jeg hefi aldrei tafist vegna lendingarinnar, en aftur á móti oft orðið að bíða vegna hins, hve erfitt og ilt var að komast um fjörðinn.