09.04.1926
Efri deild: 46. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (505)

10. mál, bryggjugerð í Borgarnesi o. fl.

Atvinnumálaráðherra (MG):

Þetta frv. er komið hingað frá hv. Nd. Það var þar nokkuð lengi, en ekki var því um að kenna, að samgmn. þar væri á móti því, heldur vegna þess, að annríki var mikið í nefndinni og hún sá sjer ekki fært að afgreiða það fyr en á eftir öðrum málum, sem hún hafði til meðferðar.

Þetta frv. er einn liður í þeirri áætlun stjórnarinnar að koma á greiðum samgöngum milli Norður- og Suðurlands. Það er meiningin, að bílfær vegur frá Borgarnesi að Vatnsskarði verði fullgerður fyrir árið 1934. En um leið og samgöngurnar eru bættar á landi er líka sjálfsagt að hugsa fyrir því, að ferðamenn þurfi ekki að bíða lengi í Borgarnesi vegna vondrar hafnar. Hv. þm. er kunnugt um það, að það er oft ekki hægt að afgreiða skip þar, þótt ekki sje mjög mikið að veðri. Meiningin er nú að bæta úr þessu á þann veg, annaðhvort að brúa Brákarsund eða hlaða garð yfir það og gera svo bryggju við Brákarey, þannig, að milliferðaskip geti lagst við hana. Jeg skal geta þess hjer, að enn er ekki rannsökuð að fullu kostnaðarhlið þessa máls, en það verður ekki byrjað á verkinu fyr en ítarleg kostnaðaráætlun hefir verið gerð. Það lítur út fyrir, að það þurfi að dýpka út frá bryggjunni, og hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að fá leiguskip í sumar til þess að dýpka hjer og víðar, t. d. í Vestmannaeyjum, Akureyri og Siglufirði. En þessu verður ekki slegið föstu fyr en útsjeð er um forlög þessa frv. Jeg vænti, að það verði ekki málinu til falls, þó að rannsóknin sje eftir, og vona, að hv. deild trúi stjórninni til þess að láta fara fram nauðsynlega rannsókn. Í Nd. var gerð sú breyting, að framlag ríkissjóðs má ekki fara fram úr 150 þús. kr. En tilætlun stjórnarinnar var, að ekki yrði lagt í verkið, ef til þess þyrfti fjárhæð, sem var töluvert minni en þetta. Jeg er ánægður með þessa takmörkun á heimildinni. Jeg hygg, að varla þurfi svona mikið fje, þegar tillit er tekið til þess, að töluvert fje fæst annarsstaðar að. Þetta mál var í samgmn. í Nd., og legg jeg til, að því verði vísað til sömu nefndar hjer, að lokinni umr.