09.04.1926
Efri deild: 46. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 978 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

10. mál, bryggjugerð í Borgarnesi o. fl.

Jónas Jónsson:

Út af ræðu hæstv. atvrh. (MG) vil jeg taka það fram, að hjer er um óvenjulegt form að ræða, að veita mikið fje til verklegra framkvæmda án þess að rannsókn hafi farið fram áður. Undir venjulegum kringumstæðum mundi jeg, og margir fleiri, vera ófúsir á að stuðla að slíku. En af því að jeg tel mál þetta mjög nauðsynlegt, geri jeg ráð fyrir því, að jeg muni frekar flýta fyrir þessu máli en tefja hjer í deildinni. Þetta verður að gerast á næstu árum, hvort sem það verður samþykt nú eða ekki, vegna hins mikla vegar, sem leggja á frá Borgarnesi til Norðurlands. En jeg vildi gjarnan fá að vita nú, hversu fljótar framkvæmdir stjórnin hugsar sjer að hafa á þessu, ef þetta verður samþykt hjer nú. Það sjest ekki af skjölum þeim, sem fyrir liggja.