29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (51)

1. mál, fjárlög 1927

Bernharð Stefánsson:

Jeg á aðeins eina litla brtt. við þennan kafla fjárlaganna, XXXVII. lið á þskj. 230, við 18. gr. II. i. 5. um að Jakobínu Sveinsdóttur júbilljósmóður á Ytri-Reistará verði veittur 500 kr. styrkur.

Eins og háttv. deildarmenn muna, bar jeg þessa till. fram í fyrra, en hún var feld. Jeg býst við, að það hafi stafað af misskilningi, enda vantaði þá fullnægjandi gögn í þessu máli. Eftir þeim upplýsingum, sem jeg gat þá veitt, og þeim vottorðum, sem jeg hafði, voru ekki sannanir fyrir því, að þessi kona hefði stundað ljósmóðurstörf lengur en 43 ár. En samkvæmt brjefi, sem jeg hefi hjerna hjá mjer, frá hjeraðslækninum á Akureyri, hefir hún stundað ljósmóðurstörf í full 50 ár, frá því snemma á árinu 1873 þangað til seint á árinu 1923, og er hv. fjvn. kunnugt um þetta brjef. Auk þess, sem hjeraðslæknirinn tiltekur þennan tíma, getur hann þess, að öll þau ár, sem hann hafi þekt hana, hafi hún sýnt sjerstakan dugnað og ósjerhlífni í starfi sínu. Nú er hún orðin gömul og getur ekki sjeð fyrir sjer sjálf, og er því ekkert vafamál, að henni er full þörf á styrknum.

Í fjárlagafrv. þessu er áætlaður styrkur til þriggja júbilljósmæðra, og hefir engin till. komið fram um að fella hann niður. Jeg sje ekki annað en að hv. deild verði að gera annaðhvort, samræmisins vegna, að fella niður þann styrk eða að samþykkja þessa brtt. Jeg vona því fastlega, þar sem hjer er ekki nema um 500 kr. að ræða, að hv. deild sýni þá sanngirni að samþykkja þessa brtt.

Um tillögur hv. nefndar eða annara þm. mun jeg lítið tala, en þó get jeg ekki stilt mig um að mæla með einni tillögu. Það er XLVIII. till. á þskj. 184, og fer hún fram á hækkun styrksins til ungmennafjelaga. Þjóðin ver árlega miklu fje til skóla, en jeg er sannfærður um, að uppeldisáhrif góðra ungmennafjelaga sjeu oft eins holl fyrir æskulýðinn eins og dvöl í sumum þessum skólum. Auk þess vil jeg líka benda á það, að eitt af því, sem dregur æskulýðinn úr sveitunum til kaupstaðanna, er deyfðin í sveitunum. En ungmennafjelögin starfa meðal annars að því að skemta unga fólkinu í sveitunum á hollan og heppilegan hátt.

Hv. frsm. fjvn. (TrÞ) mintist á bindindisstarfsemi í sambandi við templarafjelögin og mælti með auknum styrk til þeirra. Hann tók það rjettilega fram, hvað bindindisstarfsemin væri nauðsynleg, þar sem nú væri aftur búið að opna landið að nokkru leyti fyrir áfengi. En það eru engu síður ungmennafjelögin en templarafjelögin, sem að bindindisstarfseminni vinna.

Mjer finst háttv. nefnd taka stórstúkuna æðimikið fram yfir ungmennafjelögin, þar sem hún leggur til, að styrkur til hennar sje hækkaður upp í 10 þús. kr. Jeg sje ekki, að það geti verið rjettmætt, að meira en helmingsmunur sje á styrknum til þessara fjelaga. Jeg veit ekki til, að templarafjelögin vinni að öðru en bindindisstarfsemi, en auk þess sem ungmennafjelögin gera það, vinna þau að mörgu öðru til heilla og þjóðþrifa.