16.04.1926
Efri deild: 52. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 980 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

10. mál, bryggjugerð í Borgarnesi o. fl.

Jóhann Jósefsson:

Eins og hv. frsm. (SE) tók fram, var samgmn. mjög sammála um að ljá þessu máli fylgi sitt, þar sem hún skildi vel nauðsyn þess, að það er fram komið. Við 1. umr. þessa máls mintist hæstv. atvrh. (MG) á ráðstafanir, sem stjórnin hefði gert til þess að útvega í sumar skip til þess að dýpka ýmsar hafnir á landinu, og mintist hæstv. ráðh. í þessu sambandi á Vestmannaeyjar. Nú er það ljóst, að í Vestmannaeyjum, og sjálfsagt víðar, sem hæstv. atvrh. mintist á. er þess mikil þörf, að hafnir sjeu dýpkaðar. Jeg hafði áður heyrt eitthvað um þetta, að talað var um, að stjórnin leigði skip, sem er líklega með þessháttar tækjum, sem kallaðar eru sogdælur. En jeg vissi ekki, að málinu væri svo langt komið, að ráðstafanir væru gerðar til þessara framkvæmda þegar á þessu sumri, og það gladdi mig að heyra, að stjórnin hefði þegar hafist handa um þetta fyrirtæki, og vildi jeg mælast til, að hæstv. atvrh. ljeti nú uppi við þessa umr. málsins, hvaða hafnir væri hugsað um að dýpka þegar á þessu sumri.

Jeg býst við, að á öllum stöðunum þurfi einhver rannsókn fram að fara á undan verkinu og að því er Vestmannaeyjar snertir, þá tel jeg nauðsynlegt, að nokkur rannsókn sje gerð, og væri svo, þá gæti komið til mála, að manni þætti æskilegt, að unnið væri að dýpkun hafnarinnar þar í sumar: en þá er nauðsynlegt, að rannsókn á höfninni væri látin fara fram í vor. Jeg vildi aðeins geta þessa í sambandi við þetta frv., þar eð jeg skildi hæstv. atvrh. svo við 1. umr. þessa máls, að stjórnin ætlaði að láta gera þessa rannsókn á komandi sumri bæði fyrir Vestmannaeyjar og Borgarnes.