16.04.1926
Efri deild: 52. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 981 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

10. mál, bryggjugerð í Borgarnesi o. fl.

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal geta þess, að vitamálastjóra hefir verið falið að leitast fyrir um leigu þessa skips, og að hann hefir fengið tilboð um það og spurst fyrir á þeim stöðum, þar sem hugsað er til að dýpkað verði, hvort þeir vildu það. Svörin eru ekki komin enn, en jeg býst við, að þau komi bráðlega. Og færi svo, að ekki nema einn eða tveir staðir vildu sinna þessu, þá er mjög hæpið, að hægt verði að eiga við að leigja skipið, því að það er svo dýrt en til þess að það kosti ekki nema hæfilega, verður það að hafa nokkuð langa vinnu hjer uppi, að minsta kosti tveggja mánaða tíma. En fari svo, að fleiri staðir neiti að þessi uppgröftur fari fram, þá býst jeg ekki við, að neitt geti orðið af því, að skipið verði tekið á leigu; en eftir því, sem vitamálastjóri segir, er ekki líklegt, að þessu verði neitað, því að leigukjörin eru góð, en aðferðin verður líklega sú, að ríkissjóður stendur í ábyrgð fyrir öllu, því að útgerð skipsins vill aðeins semja við einn aðilja, en svo stendur hver, sem unnið verður hjá, í ábyrgð gagnvart ríkissjóði fyrir sínum hluta. Jeg hygg, að þetta muni fara vel, nema ef 2–3 staðir neita að láta vinna, eða að þetta firma, sem tilboðið hefir gert, gangi frá því aftur, en því geri jeg þó ekki ráð fyrir, ef svörin koma bráðlega. Þeir staðir, sem hjer er átt við sjerstaklega, eru Vestmannaeyjar, Borgarnes, Ísafjörður, Siglufjörður og Akureyri.