29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 223 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

1. mál, fjárlög 1927

Jón Kjartansson:

Jeg á nokkrar brtt. við þennan kafla fjárlaganna, en jeg er svo óheppinn, að mínar till. hafa ekki fundið náð fyrir augum háttv. fjvn. Skal jeg ekki átelja hana fyrir það, því jeg veit, að hún hefir í mörg horn að líta. Jeg ætla að leiða hjá mjer að tala um XVIII. brtt. á þskj. 230, þar sem hv. meðflm. minn (SvÓ) hefir þegar talað svo vel fyrir henni.

Jeg á brtt. undir tölulið XXVII á sama þskj. Fer jeg þar fram á, að ungum mentamanni verði veittar 1500 kr. (til vara 1000 kr.) til þess að kynna sjer skipulag og vinnu í skjalasöfnum erlendis. Maður þessi er Björn Karel Þórólfsson, og er hann bláfátækur bóndasonur úr Vestur-Skaftafellssýslu. Eftir að hann lauk meistaraprófi við Kaupmannahafnarháskóla, hefir hann ekki haft neina fasta stöðu, en hann hefir mikla löngun til þess að kynna sjer rækilega alt, sem að vinnu á söfnum lýtur. Í þessu skyni vann hann 1½ mánuð sem sjálfboðaliði í ríkisskjalasafninu í Kaupmannahöfn, og hefir nú sótt um styrk til hv. Alþingis til þess að kynna sjer þessa vinnu betur. Styrkbeiðni hans fylgja meðmæli frá ríkisskjalaverðinum í Kaupmannahöfn og einnig frá þjóðskjalaverði Hannesi Þorsteinssyni. Þar sem jeg þykist vita, að hv. þdm. taki meira tillit til meðmæla Hannesar Þorsteinssonar en þess, sem jeg hefi fram að færa, ætla jeg að leyfa mjer að lesa upp kafla úr brjefi hans:

„Jeg hefi kynst umsækjandanum bæði hjer heima og nú í sumar í Kaupmannahöfn, þá er hann var ritari dansk-íslensku löggjafarnefndarinnar, og leysti hann það starf vel og samviskusamlega af hendi. Hann er vel skynsamur, gætinn og sinnugur maður, er ekki hrapar að neinu, en leggur fulla alúð við hvert það starf, sem hann hefir með höndum. Hann hefir unnið um tíma í ríkisskjalasafni Dana og fengið þaðan góð meðmæli frá Laursen ríkisskjalaverði, er einnig mintist á hann við mig í sumar og ljet vel yfir starfi hans í safninu. Jeg verð að telja það mjög æskilegt, að herra Björn Þórólfsson gæti fengið styrk þann, er hann sækir um, því að síst er hjer vanþörf á manni, er eitthvað kann til skjalavörslu og hefir kynt sjer tilhögun á skjalasöfnum erlendis, en þar eru slík söfn mikils metin af öllum vísindamönnum, sem að líkindum lætur, en alls ekki höfð að hornreku eða olnbogabörnum fjárveitingarvaldsins eins og hið íslenska þjóðskjalasafn virðist hafa verið til þessa. Styrkur sá, er umsækjandi fer fram á, er heldur ekki svo hár, að ríkissjóð mundi muna mikið um að leggja hann af mörkum við fátækan, ungan og efnilegan mann, sem hefir áhuga á að vinna ættlandi sínu gagn. Og til þess er Björn Þórólfsson líklegri en margir aðrir, sem meira láta yfir sjer. Jeg vil því leyfa mjer að mæla hið besta með þessari styrkbeiðni hans.“

Jeg skal engu bæta við þessi ummæli. Þau eru svo ákveðin og töluð af svo mikilsmetnum manni, að jeg geri ekki ráð fyrir, að þess sje þörf. En jeg skal geta þess, að ef hv. Alþingi verður við bón þessa manns, ætlar hann í fyrsta lagi að kynna sjer þessi mál í Danmörku og síðan í Svíþjóð og Þýskalandi, því að þar mun skipulag í skjalasöfnum vera með öðrum hætti en í Danmörku. Varatillaga mín fer fram á 1000 krónur, með það fyrir augum, að ef háttv. deild sæi sjer ekki fært að veita 1500 krónur, mundi hún þó veita 1000 krónur.

XXX. brtt. á þskj. 230 fer fram á, að kvenfjelagi Hvammshrepps í Vík í Mýrdal verði veittar 1000 kr. (til vara 600 kr.), til þess að halda uppi kenslu í handavinnu kvenna. Þetta kvenfjelag var stofnað 1921 og hefir síðustu 4 árin haldið uppi kenslu í handavinnu kvenna úr öllum hreppum sýslunnar. Kenslunni er þannig háttað, að á veturna eru höfð námsskeið í Vík í Mýrdal. Fyrsta námsskeiðið stóð yfir í 3 mánuði, og voru nemendur 12. Annað námsskeiðið stóð líka yfir í 3 mánuði, og voru nemendur 20. Þriðja veturinn voru 2 námsskeið og nemendur voru 16 á hvoru, og sömuleiðis 4. veturinn. Í þessi 4 ár hafa samtals sótt námsskeiðið 96 stúlkur, og eru þær úr öllum hreppum Vestur-Skaftafellssýslu. Kenslunni hefir verið hagað þannig, að daglega hefir verið kent frá 8½–6½. Meyjunum hefir verið skift í tvo flokka, þannig, að hvor flokkur hefir sótt kenslu hálfan daginn, en hinn hluta dagsins hefir verið unnið heima að undirbúningi undir tímana. Kent hefir verið: Allskonar fatasaumur (og hefir aðal áherslan verið lögð á hann), ljereftasaumur, prjón, hekl, auk ýmsra annara hannyrða, og er nú í ráði að bæta við vefnaði. Altaf að námskeiðum loknum hefir verið haldin sýning, sem staðið hefir í nokkra daga og vakið mikla eftirtekt þar um slóðir. Stúlkurnar hafa sjálfar lagt til efnið og sjálfar borið kostnaðinn með því að greiða 35 kr. gjald fyrir hvert námsskeið, og hefir það gengið til kenslukaups, húsaleigu og upphitunar. Kvenfjelag þetta hefir aldrei notið styrka nema veturinn 1923–24; þá fjekk það lítilfjörlega upphæð frá Búnaðarfjelagi Íslands.

Svo mikil er eftirsóknin eftir þessum, námsskeiðum, að ein kenslukona getur ekki annað kenslustörfunum. Hún hefir sagt upp starfinu, nema því aðeins, að hún fái aðstoð, og þar sem kvenfjelagið álítur, að námsskeið þessi komi að svo miklu gagni, hefir það farið fram á, að Alþingi styrki þessa starfsemi.

Jeg þarf ekki að skýra það hjer, hversu mikla þýðingu það hefir fyrir land vort og þjóð, að heimilisiðnaðurinn sje efldur. Hvaðanæfa berast raddir um það, að fólk sje að flytjast úr sveitunum í kaupstaðina. Minst brögð held jeg að sjeu að þessu í Vestur-Skaftafellssýslu, og er það ekki hvað minst að þakka þessum námsskeiðum. Fleiri eða færri af þessum 96 stúlkum hefðu annars orðið að leita lengra og máske aldrei horfið aftur. Jeg vænti því, að háttv. deild samþykki þessa brtt. mína.

Þá kem jeg að XXXVIII. brtt., við 22. gr., á þskj. 230, þar sem farið er fram á, að veitt sje heimild til að lána Mýrdalshjeraði alt að 5000 kr. úr viðlagasjóði. Við fyrri kafla fjárlaganna átti jeg svolitla brtt., er snerti þetta sjúkraskýli, sem jeg tók aftur eftir tilmælum hv. fjvn. Jeg kem ekki með hana aftur til 3. umr., en ætla að láta hana bíða til næsta þings. En þessi tillaga er sjálfstæð, og vona jeg, að fjvn. hafi ekki neitt á móti henni, því að hjer er einungis farið fram á lán. Ef hjeraðið á að sitja eftir með þær 15 þús. kr., sem sjúkraskýlisbyggingin fór fram úr áætlun, yrði það mjög þungur baggi að bera. Vona jeg, að hv. deild sýni þá sanngirni að samþykkja þessa brtt.