26.02.1926
Efri deild: 14. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 990 í B-deild Alþingistíðinda. (521)

20. mál, bankavaxtabréf

Jónas Jónsson:

Samband mitt við hæstv. stjórn er ekki enn sem komið er svo náið, að jeg þurfi að taka alla ræðu háttv. 1. landsk. (SE) til athugunar. Jeg geri ráð fyrir, að stjórnin og íhaldið muni taka að sjer bróðurpartinn af ræðu hans. Hv. 1. landsk. hefir tekið öll bankamálin til meðferðar. (SE: Jeg hefi aðeins drepið á þau.) og er raunar ekkert á móti því að líta á þau í heild.

Það, sem hjer liggur fyrst fyrir, er þá veðdeildarfrumvarpið og samband þess við annað skipulag. Hv. l. landsk. hefir það út á milliþinganefndina og hæstv. fjrh. (JÞ) að setja, að lagt er til að framlengja veðdeildina enn um stund og ekki komið fullkomnu skipulagi á þessi mál. Jeg býst við, að hv. 1. landsk. hafi tekið eftir því, að nefndin hafði gert ráð fyrir lægri höfuðstól í hinni nýju veðdeild en stjórnin og með því sýnt, að hún skoðar þetta bráðabirgðafyrirkomulag. En háttv. þm. (SE) mun kunnugt um, að veðdeildin er nú mjög eftirspurð og að mikið gengur út af brjefum hennar. Það er alls ekki ómögulegt, að á þremur árum þyrfti nokkrar miljónir, jafnvel með þeim kjörum, sem nú er um að ræða. Gert er ráð fyrir, að í þessari veðdeild verði gefnir út fleiri flokkar og seldir til þrautar. Og ef hv. 1. landsk. kemur með mjög stóran þingmannaher eftir næstu kosningar, sem koma vill á nýju skipulagi, þá verður ekki annað bundið en sá flokkur, sem búið verður að hefja. Jeg vil ekki spá illa fyrir sigrum þessa hv. þm. í framtíðinni, og það gleður mig að geta gefið honum von um, að þetta frv. verði engin gaddavírsgirðing fyrir frelsisherinn, sem hjer á að halda innreið sína eftir næstu kosningar. Annars er jeg hv. þm. (SE) sammála um mjög vitlausa grein í stjórnarblaðinu — sem raunar er bannvara í þessari háttv. deild. — Blaðið skilur auðsjáanlega ennþá minna í þessu máli en hv. þm. (SE) og heldur, að hjer sje um einhverja nýjung að ræða. En svo er alls ekki, heldur aðeins bráðabirgðaframlenging, og var stjórnarblaðinu vorkunnarlaust að skilja þetta.

Hv. 1. landsk. heldur því fram, að jeg hafi vilst í þessu máli og skift um skoðun, og hyggir það á ummælum mínum um ræktunarsjóðsfrumvarpið, að það hafi verið vel undirbúið. En í þessu er engin mótsögn, þó jeg með því játi mistök síðasta þings, sem gerði óhugsandi að stofna ríkisveðbankann nema með lagabreytingu.

Þegar litið er á það, að hæstv. fjrh. hefir altaf beitt sjer á móti ríkisveðbankahugmyndinni og lagði á móti því í fyrra að sameina veðlán til bæja og sveita, er ekki undarlegt, þó að hv. l. landsk. sje vondaufur um framkvæmd ríkisveðbankafrumvarpsins frá 1921, meðan þessi stjórn fer með völdin.

Þá er hitt atriðið, sem háttv. 1. landsk. fann að, að jeg og ef til vill fleiri úr meiri hluta nefndarinnar teldum þurfa nokkurra ára reynslu til þess að prófa núverandi skipulag áður en því yrði breytt aftur. Jeg vil benda hv. þm. (SE) á, eins og hann raunar sjálfur hefir játað, að varasamt er að gera ráð fyrir miklum framkvæmdum í þessu efni meðan óvíst er um gengi krónunnar, hvort hún verður lækkuð í verði eða hækkuð upp í gullgildi. Hvernig fer fyrir lántakendum, sem ráðast í fyrirtæki, er verða að byggjast á föstu gengi, þegar krónan stígur mjög mikið? Jeg vona, að hv. 1. landsk. sjái, að það er töluvert annað, þó Íslandsbanki láni peninga til að framleiða fisk, sem gert er ráð fyrir að seljist sama ár. Þar getur orðið um sveiflu að ræða, en það hefir aldrei eins mikið að segja og um lán til margra ára.

Á meðan óvíst er um gildi peninganna, verður öll fasteignalánsstarfsemi miklum örðugleikum bundin, og það er svo í hverju einasta landi. Í sumar hitti jeg í Finnlandi prófessor einn, sem mikið hefir að gera með fasteignaveðlán þar í landi. — Hann sagði mjer, að þegar Finnlendingar hefðu verið búnir að festa gengið og breyta myntlögunum, þá fyrst hefðu þeir getað selt vaxtabrjef veðlánsstofnana með góðum kjörum á útlendum markaði, þá fyrst hefðu vextir lækkað o. s. frv. Á meðan gjaldmiðill Finnlands var á sífeldu reiki, var ekki hægt að koma neinu skipulagi á fasteignamálin. Hvernig er svo ástandið hjer? Hver er sekastur um fall íslensku krónunnar? Það er Íslandsbanki. (SE: Ósannindi). Það er hann, sem á mesta sök á gengishruninu vegna óstjórnar á kreppuárunum. Og svo er það hann, sem nú kemur hjer með kröfur sínar og heimtar hlunnindi í seðlamálinu, vill vegna eigin hagsmuna fá ranga lausn á seðlamálið. Mjer þykir nú skörin vera farin að færast upp í bekkinn, þegar sá maður, sem var sjálfur æðsti maður Íslandsbanka þegar verst gekk, þegar myndaðist það ófremdarástand, sem nú er, — maður, sem hefir verið með í því að bjarga þeim bankastjóra, sem þá stýrði bankanum út í ófæruna, og veita honum heiðurslaun í tilbót, — þegar hann kemur fram og fer að kenna þjóðinni, hvernig eigi að ráða fram úr þessum hlutum, þar sem einmitt stofnun hans er búin að gera þjóðlíkamann sjúkan, búin að gera peninga okkar hvikandi og á helst sök á því, að við verðum því miður að fresta því að finna framtíðarskipulag í bankamálunum.

Jeg álít það mjög heppilegt, að mjer gefist tækifæri að benda á þann dæmalausa gorgeir, sem kemur fram í því, að þeir, sem að þessari stofnun standa, skuli leyfa sjer að halda því fram, að landið eigi ekki að leggja seðla sína í þá stofnun, sem það sjálft á, þar sem þeir altaf áttu að vera.

Þá talaði háttv. 1. landsk. um það, að það hefði komið fram í till. minni, að sætta sig við ræktunarsjóðinn og veðdeildina, og jeg ljeti mjer lítið umhugað um hag bænda. Jeg vil minna hv. þm. á það, að það er ekki lengra síðan en í hitteðfyrra, að jeg gerði tillögu um það, að söfnunarsjóðurinn gengi í lán handa bændum til ræktunar, og þá var það hv. 1. landsk., sem var einn í þeim meiri hluta, sem feldi það hjer í deildinni.

Þegar jeg kom í fyrra fram með frv. um það að tryggja þann möguleika, sem aðrar siðaðar þjóðir hafa til þess að stofna nýbýli í landinu, þá varð jeg lítils stuðnings aðnjótandi frá hv. 1. landsk. Sama skilningsleysis á nýræktunarmálinu hefir orðið vart hjá honum á þeim fundum, þar sem við höfum verið saman úti um landið. Hann skilur ekki, að heimilafjölgunin í sveitinni er þungamiðjan í okkar ræktunarmáli, eins og hann gæti sjeð, ef hann vildi kynna sjer, hvað það er, sem hefir stutt að fjölgun býla í Danmörku, Noregi og Finnlandi, og hvað það er, sem mesti stjórnmálamaður Englands ætlar nú að gera í þessu efni í sínu landi. (SE: Hann er ekki búinn að því). Nei, en það er varla ástæða fyrir hv. 1. landsk. að gera lítið úr Lloyd George, hann hefir gert ýmislegt, sem erfiðara er en að stofna nokkur nýbýli í Englandi.

Jeg tel ekki, að þessi hv. þm. hafi neina ástæðu til að gera sig svo gildan í þessu máli sem hann nú hefir gert. Hann hefir stundum verið deigari, þegar mest hefir riðið á að rjetta hluta fólksins við, en verið einn af varðmönnum þess fjesýslusjúkdóms, sem haldið hefir verið við, sjálfsagt til hagsmuna fyrir hluthafa Íslandsbanka.

Það mun hafa verið skrítla í blaði stúdenta, þar sem reikningskennari sá 11 á töflunni, en lærisveinninn hafði skrifað 1. Jeg er hræddur um, að bankamálavitið hafi stigið hv. 1. landsk. til höfuðs, og þess vegna fjölgi til muna í bankanefndinni.

Þar sem hann talaði um stórt höfuð á svo lítilli stofnun, þá finst mjer það nokkuð áþekt því risavaxna stjórnarhöfði, sem verið hefir á okkar litlu þjóð, og ætti ekki að sóma sjer mikið ver á bankanum.

Þá skildist mjer hv. þm. vera óánægður yfir því, að gert er ráð fyrir ríkissjóðsábyrgð á Landsbankanum áfram. Vil jeg aðeins benda á það í þessu sambandi, að þannig hefir það staðið fyrir hugum fólksins síðan 1885. Það hefir aldrei reynt á það með dómi, hvort þjóðin sje í ábyrgð fyrir bankanum, en það hafa allir gengið út frá því. Jeg býst við, að sá, sem segir, að óeðlilegt sje, að landið beri ábyrgð á sínum eigin banka, sje ekki hv. 1. landsk., heldur einhver bankastjóri Íslandsbanka, sem heldur að landssjóðsábyrgð muni draga úr innlögum í hans eiginn banka.

Þá er það sjálfsagt af sama toga spunnið, þegar hv. þm. heldur það tómar fjarstæður, sem jeg segi á síðustu blaðsíðu í skýrslu milliþinganefndarinnar um húsbóndavald á fjármálaheimili, eftir að komið væri á það skipulag, sem milliþinganefndin gerir ráð fyrir um Landsbankann. Hver hefir húsbóndavaldið á fjármálaheimili Íslands? Er það Íslandsbanki, sem mest hefir af seðlunum? Nei. Telur hann sjer skylt að gegna ríkisbankaskyldum? Nei. Hefir hann talið sjer skylt að kaupa gjaldmiðil undanfarin ár? Nei, hann hefir ekki gert það. Hefir Landsbankinn húsbóndavaldið? Nei, hann hefir ekki seðlana að lögum, nema þessa nýju seðla með óhagstæðum kjörum, sem ekki eru miðuð við áhættuna, sem þjóðbankar hafa af seðlum. Er það sparisjóðurinn á Eyrarbakka? (SE: Það er nú búið að eyðileggja hann). Jeg held, að hv. þm. ætti að geta áttað sig á þessu og sjeð, að nú sem stendur er enginn húsbóndi á heimilinu. Þess vegna er það, að þeir erlendu fjármálamenn, sem fyr og síðar hafa verið spurðir um það, hvað þeir álitu skynsamlegast að gera í þessu seðlamáli, hafa komist að sömu niðurstöðu, sem hjer um bil allir hugsandi menn hjer á landi og gert hefir verið ráð fyrir fram á síðustu mánuði, nefnilega að Landsbankinn ætti að hafa seðlaútgáfuna; með því væri eina tryggingin fyrir því, að húsbóndi væri á fjármálaheimilinu.

Jeg skal skýra dálítið betur, hvað fyrir mjer vakir. Jeg nefndi sparisjóðinn á Eyrarbakka. Hv. 1. landsk. er sjálfsagt kunnugt um, að það var stór sparisjóður, sem naut tiltrúar í góðri sveit. En hann fór á hausinn af því, að honum var glæfralega stjórnað. Eitt af því, sem sparisjóður þessi gerði, þegar hann var orðinn sjúkur og þurfti að verjast falli í brekkunni, var að setja upp innlánsvexti, upp úr öllum öðrum lánsstofnunum hjer á landi. Svo vann hann það upp á útlánsvöxtum, og þeir, sem þurftu að fara til okrara, fóru til hans. Á þennan hátt dró hann að sjer mikið fje. Ef þessi stofnun hefði spurt þingið að því, hvort við vildum láta hana hafa seðlana, þá býst jeg við, að við hefðum verið nógu skynsamir til að segja: við viljum ekki skifta við stofnun, sem rekin er á svo óheppilegum grundvelli.

Jeg vona, að hæstv. forseti afsaki það, þótt jeg víki að sumu, sem ekki er beint til umræðu nú, nefnilega úrræði háttv. 1. landsk. Seðlastofnun hans hefir það sjereinkenni, að hún er ekki neinn húsbóndi á fjármálaheimilinu. Íslandsbanki vill vera yfir þeirri stofnun, og þess vegna berst hann fyrir þessu af öllum kröftum. Hann vill ekki vera háður nokkru eftirliti vegna þjóðarhagsmuna. Hann heimtar að fá að vera ríki í ríkinu. Það liggja ekki neinar aðrar ástæður fyrir andstöðu og andhælis hætti leiðandi manna þess banka í seðlamálinu nema þetta.

Jeg mun seinna fá tækifæri til að tala um þessa hlið málsins, veikleika slíkrar seðlastofnunar til að halda niðri vöxtum í landinu og vera sá húsbóndi, sem nokkurt tillit er tekið til, og þá sálarlegu strauma, sem liggja til þess, að svo margir merkir menn álíta, að íslensk fjármál þurfi að fá þennan húsbónda.

Þegar það er athugað, að sama stofnunin, sem með sinni óheppilegu fjárstjórn hefir mest áhrif haft til þess að fella íslenska krónu, hindrar nú það, að við getum fengið þolanlega úrlausn á okkar seðlamáli, — og það bætist við, að þetta er útlend stofnun, — þá er skörin farin að færast upp í bekkinn.