26.02.1926
Efri deild: 14. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

20. mál, bankavaxtabréf

Sigurður Eggerz:

Það hefði verið ákaflega skemtilegt, hefði hv. 3. landsk. haldið sjer svolítið betur við efnið en hann hefir gert. Enda hefir afstaða hans til Íslandsbanka komið í ljós fyr, og óþarfi að undirstrika hana.

Jeg skal geta þess, að jeg mótmælti því ekki, að stjórnin kæmi með veðdeildarfrv. Það er misskilningur. Jeg sagði, að jeg gerði ráð fyrir, að þótt ákveðið hefði verið, að ríkisveðbankinn kæmist á fót, þá hefði orðið að koma með veðdeildina nú sem hreint bráðabirgðafyrirkomulag. Jeg mintist einnig á það, að þessi upphæð, 8 milj., sem stjórnin hækkaði upp í 10 milj., benti í þá átt, að þetta ætti að vera meira en bráðabirgðafyrirkomulag.

Hv. þm. kvað stjórnina hafa eyðilagt það, að ríkisveðbankinn væri settur á stofn, með því að ræktunarsjóðurinn nýi var stofnaður á síðasta þingi. En ef jeg man rjett, þá barðist þessi hv. þm. einmitt fyrir ræktunarsjóðnum. (JJ: Hvar var hv. 1. landsk.?). Jeg var á móti honum, skoðaði hann sem hvert annað „humbug“.

Þessi hv. þm. mintist á fundi úti um landið. Jeg man eftir, að jeg var á fundi með hv. 3. landsk. í Borgarnesi. Hann stráði sínum púðursykri óspart yfir bændur. Hann var svo sem ekki að tala við þá um málin. En mikið talaði hann um það, hvað hann sjálfur hefði gert fyrir bændastjettina. Þegar jeg gerðist svo einfaldur að minnast á það við kjósendur, að gallar væru á ræktunarsjóðnum, þá komst jeg ekki upp fyrir moðreyk. Það var ekki verið að deila um það, hvort ræktunarsjóðurinn væri góður, heldur hitt, hver hefði komið honum í gegn. Þar var sem sje gengið út frá því, að bændur væru glaðir yfir að fá þennan banka, sem hv. þm. sjálfsagt í hjarta sínu telur gallagrip. Og þó vildi hv. þm. umfram alt þakka sjer sjóðinn og sínum flokki, en íhaldið vildi þakka sjer. Og var það nokkur von, þar sem stjórnin kom með frv. Svona er nú hreinskilnin við kjósendur. Það var ekki að tala um gagn ræktunarsjóðsins; hitt var aðalatriðið, að nota hann fyrir kjósendabeitu. Hv. þm. snerist í þessu máli á síðasta þingi, af því að hann var hræddur um, að stjórnin kæmi ræktunarsjóðnum í gegn. Jeg þekki þessa karla og veit, hvað liggur á bak við, og þjóðin mun á sínum tíma skilja. (JJ: Hún skildi það nú illa í Borgarnesi). Mikið má vera, hafi hún ekki skilið betur það, sem jeg sagði, heldur en það, sem hv. 3. landsk. sagði. Heyrst hafa raddir um það, að hann og hans flokkur hafi ekki stækkað á þeim fundi.

Þá var hv. þm. í speki sinni að tala um það, að ekki væri hægt að koma ríkisveðbanka á stofn, vegna þess, að krónan er ekki orðin föst ennþá. En hv. þm. verður vel að gæta að því, að alt, sem gert er á þessu landi, verður að reikna með tilliti til þessa.

Það er auðvitað, að sá maður, sem tekur lán og byggir hús og á að borga eftir svo og svo mörg ár, veit það, að hann tapar vegna, gengisbreytinga. Af hverju byggir hann? Af því að hann er tilneyddur. Lífið heimtar stöðugt starf, og þjóðin getur ekki stöðvað sig í framkvæmdum.

Það er auðvitað ekki gott að selja of mikið af brjefum í einu. En jeg tel, að vel mætti miða það eftir þörfum.

Hv. þm. var að vitna í útlendan mann um þessi mál. Hv. þm. hefir altaf mikla tröllatrú á vissum mönnum, og vildi jeg vara hann við því; en annars er jeg hræddur um, að hann hafi ekki skilið, hvað þessi maður var að fara. Jeg er hræddur um, að þeir erlendu menn, sem hv. þm. talaði við, haldi, að við getum bygt á úreltu fyrirkomulagi, af því að við hefðum ekki ráð á öðru.

Svo fór háttv. þm. að tala um Íslandsbanka, þú að það kæmi ekkert þessu máli við. Það mætti reyndar athuga rækilega alla þá erfiðleika, sem sá banki mætti og aðrir bankar í heiminum á sama tíma. En jeg skil ekki í því, að jeg beri neina ábyrgð á því, hvernig Íslandsbanka var stjórnað í fortíðinni. Að vísu var það rjett, að jeg vann á móti því, þegar hv. þm. vildi koma honum fyrir kattarnef. Jeg hygg, að jeg þurfi ekki að bera kinnroða fyrir það, því að jeg er sannfærður um það, að ef tekist hefði að kippa fótum undan öðrum aðalbanka þjóðarinnar, þá hefðu þau góðu árin, sem nú hafa komið yfir land vort, skilið það eftir öðruvísi en raun er á. Þetta hefði verið einhver mesta ógæfa, sem hægt hefði verið að leiða yfir þjóðina. Við sjáum, að bankahrun grípa ákaflega djúpt um sig, og myndi slíkt verða mjög örlagaþrungið fyrir fátæka þjóð. Hvað hefði orðið, ef tekist hefði með árás á annan höfuðbanka landsins að eyðileggja hann? Hvaða áhrif hefði það haft á íslenskt þjóðlíf? Og Landsbankann? Það er mjög líklegt, að það hefði dregið hann niður líka. Þessi háttv. þm. ætti altaf, þegar hann nefnir Íslandsbanka, að roðna, því að framkoma hans var alveg ósæmileg; hann hefir látið hatrið blinda sig algerlega. (Forseti(hringir): Má jeg biðja hv. þm. að haga orðum sínum þinglega). Jeg tek ekkert aftur af því, sem jeg hefi sagt, hæstv. forseti. Annars finst mjer það koma úr hörðustu átt, þegar þessi hv. þm. (JJ) er nú að beina því að þessum banka, að hann hafi orðið til þess, að minsta kosti nú í seinni tíð, að standa á móti sæmilegu gengi krónunnar. Jeg veit ekki betur en að aðstaða Íslandsbanka sje sú, að fara gætilega í hækkun krónunnar, sökum þess, að það sje hollast fyrir báða aðalatvinnuvegina. En þótt hv. þm. viti þetta vel, þá er óvildin svo mikil til Íslandsbanka, að honum dettur ekki í hug að minnast á, að hann hafi þessa aðstöðu. Honum dettur aldrei í hug annað en að afsaka Landsbankann, en kenna Íslandsbanka um. Þó að hv. þm. kalli Íslandsbanka danskan banka, þá veit hann, að í stjórn hans eru aðeins íslenskir menn. En í stjórn Landsbankans er danskur maður, en hv. þm. segir ekki eitt orð um það.

Þá talaði hv. þm. um gorgeir í mjer. Úr því að jeg er þingmaður, verð jeg að halda fram mínum skoðunum, hvort sem jeg er bankastjóri eða ekki. Jeg gæti skilið, að hv. 3. landsk. væri stórorður, ef jeg væri að berjast, fyrir því að fela Íslandsbanka seðlaútgáfuna. En það er ekki tilfellið. Jeg veit, að allir bankastjórar Íslandsbanka mundu rísa á móti því, ef um slíkt væri að ræða. Jeg skil það vel, að þessi hv. þm. álítur það skyldu sína að gera alt, sem Landsbankinn vill gera láta og leggur áherslu á að gert sje. Hann hefir blinda ást á bankanum. Jeg vona, að hæstv. forseti taki ekki illa upp fyrir mjer, þó jeg tali um blinda ást. Jeg veit, að í krafti þessarar blindu ástar vill hann fá Landsbankanum í hendur seðlaútgáfuna. En jeg álít það hina mestu bölvun fyrir bankann, ef slíkt kæmi fyrir, hið mesta óhapp fyrir hann að taka við seðlaútgáfunni. Jeg þykist vera Landsbankanum eins velviljaður og þessi hv. þm. og jeg vil, að vegur hans vaxi, ekki vegna neinna sjerstakra manna, heldur vegna þess, að jeg veit, hve mikla þýðingu þessi stofnun hefir fyrir þjóðina. En með þessu álít jeg, að sje sköpuð hætta fyrir bankann, hætta sem gæti orðið honum örðug.

Þá sagði hv. þm., að jeg hefði farið rangt með áðan, er jeg talaði um höfuð bankans, alls 24 menn, sagði, að þeir væru ekki nema 19. Það má vel vera, að það sje rjett, að þeir sjeu ekki fleiri, en óneitanlega finst mjer það stórt höfuð á ekki stærri stofnun.

Ekki fjekk jeg sjeð, að hv. þm. tækist að sanna, að þótt þetta nýja fyrirkomulag yrði samþykt, yrði betur sjeð fyrir vöxtum í landinu. Landabankinn hefir ekki vald til þess að ákveða vexti fyrir sparisjóðina, svo að því er snertir vaxtakjörin, hygg jeg, að ekki yrði breyting frá því, sem nú er. Alt það sem þessi hv. þm. var að tala um húsbóndann á heimilinu var tóm illkvitni, eins og vænta mátti. Það er leiðinlegt, að þótt reynt sje að ræða mál með rökum, þá þarf þessi hv. þm. altaf að leita að einhverjum eigingjörnum hvötum, er hann heldur að ráði gerðum manns.

Jeg sagði í fjhn., að ef jeg ætti Íslandsbanka og ef ætti að stjórna honum með eiginhagsmuni fyrir augum, þá væri sjálfsagður hlutur að lána ekki nema tryggum og öruggum fyrirtækjum. Ef bankinn hugsaði aðeins um sinn eiginn hag, þá ætti hann að fara þannig að. En bankinn hefir skilið þá ábyrgð, sem á honum hvílir, af því að hann hefir verið styrktur af ríkissjóði, og því hefir hann teygt sig langt sjer í óhag. Fyrir það hafa atvinnuvegirnir blómgast, en bankinn beðið stærri töp en hann hefði ella þurft. Jeg fæ ekki sjeð, að Íslandsbanki hafi gætt annara hagsmuna meira en hagsmuna atvinnuveganna. Jeg er hræddur um, að hv. 3. landsk. taki ekki tillit til þess, að hann er hjer á Alþingi, en það heilræði vil jeg gefa hv. þm., að gleyma því aldrei. Þjóðin gerir vissar kröfur til fulltrúa sinna, sem ekki er ráðlegt að gleyma.