29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

1. mál, fjárlög 1927

Pjetur Þórðarson:

Það er XXXII. brtt. á þskj. 230, sem jeg ætla að gera að umtalsefni. Mjer þætti vænt um, ef hæstv. fjrh. (JÞ) vildi heyra eitthvað af því, sem jeg hefi fram að færa, af því að jeg býst við, að gott verði að njóta sjerþekkingar hans í þessu máli. Tillaga mín fer fram á, að Jóni Helgasyni í Borgarnesi verði veittur styrkur til að gera vindknúða rafmagnsstöð. Jeg vil minnast á ummæli hv. frsm. (TrÞ) út af þessu. Hann blandaði saman tveim óskyldum atriðum, þegar hann nefndi þrjú erindi um eitt og sama efni, nefnilega að setja upp vindknúða rafmagnsstöð. Erindi um þetta efni, sem fyrir háttv. fjvn. hefir legið, hefir tvenskonar gildi. Annarsvegar á að reyna útlenda vjelagerð, sem er sjerstaklega útbúin á þann hátt, að vindaflið er notað til þess að framleiða rafmagn. En hinn tilgangurinn er að hjálpa líknarstofnun, sem þegar er komin upp, hressingarhæli í Kópavogi. En það að reyna þessa útlendu vjelagerð á bara að nafninu til skylt við þetta erindi, sem jeg flyt hjer. Þessi útlenda vjelagerð, sem vindurinn knýr á meðan hann varir við, á ekki við aðra gerð en þá, sem getur notað vindinn, meðan hann getur hreyft vjelina, en ekki samsafnaðan forða, sem notast þegar logn er. En það, sem þessi maður er að finna upp, er ekki einungis það, að búa til sjerstaka vindknúða vjel, sem eyðir orkunni jafnótt og henni er safnað saman, heldur líka hylki, sem hann getur safnað vindaflinu í, og getur það svo enst í margar stundir, þegar logn er. Mun þetta, að safna orkunni saman og geyma hana, hafa verið reynt í ýmsum löndum, en mun misjafnlega hafa tekist. Vitanlega hefi jeg ekki svo mikið vit á þessum málum, að jeg geti sagt um, hvort hægt sje að gera þetta eftir hugmyndum þessa manns. Aðalatriðið er það, að íbúa til hylki, sem sje nóga sterkt til þess að þola þennan mikla þrýsting. Maðurinn hefir nú sett upp algerða fyrirmynd, en náttúrlega í mjög smækkaðri stærð. Vjelin getur verið í fullum gangi og hylkið er venjuleg olíustáltunna. Hylki fyrir rafmagnsstöð, sem framleiðir 50 hestöfl, þarf að vera 200 m3 að rúmmáli, og hygst hann að geta gert það úr járnbentri steinsteypu. Þrýstingurinn af hinu samanþjappaða lofti er áætlaður 15 kg. á hvern fersentimetra. Vitanlega getur miklu minni rafmagnsstöð með hlutfallslega miklu minni geymi orðið að allmiklum notum. Hann gerir sjer örugga von um, að búa megi til hylki úr þessu efni, sem jeg nefndi, er þoli þennan þrýsting. Og ef þetta skyldi takast, telur hann, að með þrýstilofti þessu sje fengið afl til þess að reka 50 hesta vjel í 18 klukkustundir, án þess nokkur vindsvali hreyfi vængina, eða á meðan logn varir, en það mun sjaldgæft, að um gersamlegt logn sje að ræða lengri tíma en 18 stundir í senn, enda hreyfast vindmylluspaðarnir í hvað litlum andvara sem er, og getur þá sú orka sparast, sem geymist í hylkinu.

Það má sjá af erindi Ormssona, að þeir gera ráð fyrir að setja upp þýska vjel, en hún getur ef til vill stöðvast og kemur ekki að fullum notum. Þess vegna á að setja þar upp steinolíumótor samhliða, sem hægt sje að grípa til í logni. Þessi vjel er ekki útbúin með hylki til þess að safna orku í, nema að litlu leyti. Að vísu fylgja henni smáhylki til að geyma þjettiloft í, en það er of lítið fyrir slíka rafstöð, sem hjer er um að ræða, enda er ekki hægt að fá svo stór hylki utanlands frá, sem fullnægðu í þessu efni. Það mundi aldrei svara kostnaði að flytja slík ferlíki landa milli. Það, sem um er að ræða, er að gera hylki, sem nothæft er og staðbundið og verður ekki fært úr stað.

Og takist þetta, eins og Jón Helgason gerir sjer góðar vonir um, þá geta allir sjeð, að hjer er um hagkvæma uppgötvun að ræða og að slík rafstöð yrði margfalt ódýrari í rekstri en dæmi þekkjast til um nokkra aðra stöð, er framleiðir jafnmikla orku. Hjer er því ekki um lítið hagsmunamál að ræða, sem varðar allan almenning, ef takast má að finna ráð til þess að búa til svo traust og örugt hylki, sem geymi í sjer þá orku, sem annars hefði orðið að framleiða með mótorkrafti. Með þessu er því ekki um annað en vindaflið að ræða til þess að reka slíka rafstöð.

Jeg býst nú við, að fleirum háttv. þdm. fari líkt og mjer, að þá bresti fræðslu í þessu efni og beri ekki nægilegt skyn á að dæma um, hvort hugmynd Jóns Helgasonar komi að eins miklu gagni og hann gerir sjer vonir um. Hitt er mjer kunnugt um, að Jón hefir lagt mikla stund á vjelfræði og aflfræði og mun mega teljast allvel fær í þeim greinum. Held jeg því, að það væri ráð að styrkja hann í eitt skifti dálítið verulega, svo hann mætti koma hugmynd sinni í framkvæmd og sjá fyrir endann á því, hvort hún væri nothæf eða ekki.

Jeg veit að sönnu, eins og á stendur, að það mundi hafa betri byr að reyna aðeins eitt atriði í einu, eða mæla aðeins með einn af þeim þremur erindum, sem þinginu hafa borist um styrk til þess að setja upp vindknúðar rafstöðvar. En af því að þetta erindi, sem jeg ber fram, er töluvert ólíkt hinum tveimur, þar sem hjer er um að ræða að gera hylki til þess að safna í orku og geyma, þá held jeg ekki í annan tíma hentugra tækifæri en nú að gera þessa tilraun með þeirri upphæð, sem jeg sting upp á að verði til þess veitt. Og eins og háttv. frsm. þessa hluta fjárlagafrv. (TrÞ) tók rjettilega fram, að einstakir þm. hefðu ekki borið fram miklar gjaldaukatill., eða verið svo hepnir að finna sig ekki til þess knúða, þá finst mjer meiri ástæða til, að háttv. deild geti fallist á talsvert af þeim brtt., sem nú liggja fyrir, Þar er þó ólíku saman að jafna, hvað miklu færri og lægri gjaldaukatill. liggja fyrir nú eða í fyrra.

Að vísu er það vani að brjóta á bak aftur ýmsar af þeim brtt., sem einstakir þm. bera fram. En jeg þykist sjá, að hv. þdm. sjeu farnir að skilja, að taka beri meira tillit til, hvaða almennings hagsmunir felast í hverri till., og veiti henni stuðning með atkv. sínu, en að láta hana gjalda þess, hvernig fyrir henni er mælt. Jeg vona, að þessi brtt. mín hafi svo mikið til síns gildis, að tilvinnandi þyki að veita þessa fjárhæð, svo að maðurinn geti komist að raun um, hvort þessi uppfundning, sem hann ber svo fyrir brjósti, sje nothæf eða ekki. Ekki að vita, að við fáum slíkt tækifæri síðar til þess að vita vissu okkar í þessu efni, og jafnvel þó báðum hinum fjárbeiðnunum sje sint líka, efast jeg um, að þær verði eins notadrjúgar almenningi eins og sú tilraunin, er jeg mæli með að styrkt verði.

Jeg veit, að það hefir enga þýðingu, þó jeg vildi útlista þessa uppfundningu nánar og reyna að gera hv. þdm. skiljanlegt, hvernig þrýstiloftinu er ætlað að koma í stað vjelatækja í venjulegri raforkuvjel. Það yrði talsvert langt mál, svo jeg vil sleppa að fara frekar út í það að sinni, en mundi þó gera það, ef einhver óskaði sjerstaklega eftir því. Og sama er að segja, ef þeir háttv. þdm., sem ef til vill bera skyn á þessa hluti, eða hafa verkfræðiþekkingu, efast um, að svona hylki eins og jeg hefi talað um þoli þrýstinginn, þá skal ekki standa á mjer að gefa síðar frekari upplýsingar, fengnar frá uppfinningamanninum sjálfum.

Fyrst jeg hefi dálítinn tíma eftir þangað til fundarhljeið hefst, ætla jeg að leyfa mjer að minnast lítilsháttar á aðra brtt., sem jeg á og er sú XXIV. í röðinni á sama þskj.

Hún er um það, að veittur verði dálítill styrkur til að gera tvo fossa í Mýrasýslu laxgenga. Á síðasta þingi bar jeg fram till. um sama efni. Hún fjekk góðar undirtektir, var samþykt hjer í deildinni og komst til hv. Ed., en hrundið þar vegna vantandi upplýsinga um, hvernig samningum væri háttað um það atriði, sem fjárveitingin átti að styrkja. Nú eru fengnar þessar upplýsingar, sem spurt var um í fyrra, hvort fyrir lægi samþykki þeirra manna, er veiðirjett eiga að ánni og í hliðaránum, sem í hana falla, og hvort nægilega traust væri um þau samtök búið að leggja fje á móti styrknum úr ríkissjóði — þ. e. 2/3 kostnaðar — til þess að gera ána laxgenga alt til fjalla, auk fleira, sem spurt var um í þessu sambandi.

Þessu öllu er nú svarað með erindi frá oddvita Norðurárdalshrepps, sem jeg hefi að vísu ekki sent Alþingi, heldur fjvn., og hefir hún haft það til athugunar. Þó að hún hafi ekki tekið þennan styrk upp í sínar brtt., býst jeg við, að hún sje brtt. minni samþykk, og miða jeg það við þann byr, sem málaleitun þessi hafði hjer í fyrra, enda hefi jeg enga ástæðu til að ætla, að hv. deild sje ekki sama sinnis enn eins og hún var þá. Annars hefi jeg ekki miklu við að bæta það, sem jeg sagði í fyrra. Það, sem um er að ræða, er að gera laxinum fært að ganga lengra upp eftir ánni ofan við fossana og í aðrar ár. Eru mikil líkindi til, að þar rísi upp stöðvar fyrir laxa- og silungaklak, enda talið af kunnugum, að víða sjeu góð skilyrði til þess þar efra, auk þess sem fullyrt er, að ágætar riðstöðvar sjeu víða í ánum, og það langt fram til fjalla. Upphæðin er líka smá, sem farið er fram á að sje veitt, að eins 1000 krónur, og vona jeg, að hv. deild sjái sjer fært að samþykkja hana.

Það er tilgangslaust fyrir mig, þó jeg vildi fara að minnast á ýmsar af þeim brtt., sem fyrir liggja, enda þreytast menn á að heyra álit margra um sama efni. Slæ jeg því striki yfir alt hitt, og sýni við atkvgr., hverju jeg fylgi og hverju jeg er á móti.