09.03.1926
Efri deild: 23. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1012 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

20. mál, bankavaxtabréf

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Þetta frv. efir verið athugað í fjhn. þessarar háttv. deildar, og hefir hún nú lagt fram álit sitt og till. um það.

Eins og hv. þdm. er kunnugt frá síðasta þingi, þegar skipuð var milliþinganefnd í bankamálum, þá var vitanlega bráðnauðsynlegt, að komið yrði annaðhvort nýju skipulagi á fasteignaveðlán eða að öðrum kosti yrði stjórn Landsbankans veitt heimild til þess að gefa út ný veðdeildarbrjef. Nefndin samdi svo frumvarp það til laga um ný bankavaxtabrjef, sem hjer liggur nú fyrir — að nokkru breytt af stjórninni.

Fjhn. hefir ekki sjeð ástæðu til að gera margar brtt. við frv. En þó er einkum ein brtt. allþýðingarmikil, sem nefndin leggur til, að gerð verði við l. gr. frv. Nefndin komst að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa talað við hæstv. fjrh., að það gæti verið hentugt að hafa tvo flokka af veðdeildarbrjefum starfandi í senn, þannig að sá, sem um lán beiddi, gæti valið um, hvort hann vildi t. d. fá lánið með minni afföllum og þá aftur hærri vöxtum. Þetta fyrirkomulag vildi nefndin að væri heimilað í lögunum. En þá var að skifta þessu fje, sem annars átti að vera í einum flokki, 5 miljónir kr. að upphæð. Höfum við lagt til, að því yrði skift jafnt í þessa tvo flokka, eða 2½ miljón kr. í hvorn. Það er vitanlegt, að hið lága gangverð á veðdeildarbrjefum hefir verið mjög bagalegt, og því líklegt, að margir vildu jafnvel vinna það til að greiða hærri vexti, ef þeir fengju með því móti meira út á veð sín.

Þá er brtt. nefndarinnar við 14. gr. Er sú brtt. sjálfsögð. Úr því nafnverð brjefanna er lægst 100 kr., þá verða aukaafborganir þær, sem hjer er um að ræða, að standa á rjettu hundraði, til þess að hægt sje með þeim að innleysa bankavaxtabrjef, er nemur sömu upphæð og þetta innborgaða fje. Lög um 4. flokk veðdeildar frá 1913 kveða að vísu eins á um þetta og frv., en reglugerðin fyrir 4. flokk, frá 7. maí 1914, orðar þetta eins og nefndin leggur nú til. Virðist rjett að samræma þetta hjer.

Um brtt. nefndarinnar við 15. gr. er það að segja, að lögin um 4. flokk veðdeildarbrjefa hafa engin slík ákvæði, sem nefndin leggur hjer til, að tekin verði upp í þetta frv. En hinsvegar standa samskonar ákvæði í reglugerð þeirri um 4. flokk, sem jeg nefndi áður. Það eru ákvæði um dráttarvexti og hve miklir þeir skuli vera. Hinsvegar áleit nefndin, að ef taka ætti upp þetta ákvæði reglugerðarinnar, þá væri óhjákvæmilegt að taka upp ákvæði úr tveim næstu gr. reglugerðarinnar á undan, og er það að nokkru leyti gert í frumvarpinu. Nefndin áleit nauðsynlegt, úr því að það er talið nauðsynlegt að heimta dráttarvexti, þá yrði sett heimild fyrir því í lögin sjálf, og hefir hún því gert þessa till. um að heimila dráttarvexti, án þess þó að tilgreina, hve háir þeir skuli vera. Upprunalega lagði bankanefndin til í frv., að þessir vextir skyldu vera 5% á mánuði. Stjórnin lækkaði þetta um helming, en það þykir nefndinni fullhátt. En þó sumum nefndarmönnum þyki till. stjórnarinnar fullhá og vildu helst láta sitja við þá dráttarvexti, sem verið hafa, þá hefir nefndin ekki gert brtt. um það.

Þá er síðasta brtt. nefndarinnar við fyrirsögn frv. Okkur þótti viðkunnanlegra að segja: heimild til að gefa út nýja veðdeildarflokka, heldur en: ný bankavaxtabrjef.

Þá eru brtt. ekki fleiri, og tel jeg mig svo ekki þurfa að fjölyrða frekar um málið í heild. Nefndinni er ljóst, að þetta frumvarp er ekki annað en áframhald af þeirri veðdeildarstarfsemi, sem verið hefir áður, og hjer með er ekki lagt út á neina nýja braut til þess að bæta, úr þörfinni fyrir veðlánsstofnun í landinu. En meðan ekki er fundin ný leið eða farin, þá er nauðsynlegt að halda veðdeildarstarfseminni áfram. Það hefir verið mjög mikið kvartað yfir því að undanförnu, hvað gangverð brjefanna hefir í seinni tíð verið lágt. Það er nú von mín, að þessi nýja tilhögun með tvo veðdeildarflokka, sem starfa í senn, muni eitthvað geta ráðið bót á þessu lága gangverði. Því að það er eðlilegt, að hvað fari eftir öðru: vextir og gangverð brjefanna.

Hvað það snertir að auglýsa bankavaxtabrjefjn og sölu þeirra innanlands, þá er það að vísu rjett, að allur almenningur hjer hefir litla þekkingu á sölu verðbrjefa og lítið með bankavaxtabrjef eða önnur verðbrjef yfirleitt að gera, og getur vel verið, að í þeim ókunnugleika liggi það, hvað bankavaxtabrjef og ríkisskuldabrjef eiga örðugt uppdráttar um útbreiðslu meðal almennings, og væri vel farið, ef eitthvað væri hægt að gera til þess að bæta úr því. Slíkt mundi verða vel þegið, ef það mætti verða til þess að lækka þau afföll, sem á brjefunum eru nú.