13.03.1926
Efri deild: 27. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1028 í B-deild Alþingistíðinda. (542)

20. mál, bankavaxtabréf

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg sje ekki ástæðu til að fara mikið út í það, sem hv. 1. landsk. (SE) sagði um ræktunarsjóðinn, því að það liggur alveg utan við þetta mál. En út af því, sem hann sagði, að ræktunarsjóðurinn reyndist ekki fullnægjandi fyrir landbúnaðinn, skal jeg láta þess getið, að eftir framkominni reynslu má fyllilega gera sjer von um, að honum takist að fullnægja því takmarkaða verkefni, sem honum er sett með lögum, sem sje að veita lán gegn fasteignaveði til ræktunar landsins, og húsbygginga í sveitum eftir kringumstæðum.

Jeg held því líka fram, að þessum sjóði hafi verið fengin fullforsvaranleg forstaða, og að sá maður leggi þá stund á forstöðuna, er vera þarf. Jeg veit, að hann hefir ástæður til að stunda þetta starf og að hann gerir það.

En launin fyrir þetta starf eru í lögunum ákveðin svo, að gert var ráð fyrir, að hæfur maður, sem til þess fengist, yrði að hafa önnur störf jafnframt til framfærslu sjer.

Um veðdeildarlöggjöfina get jeg tekið undir með hv. 1. landsk., að æskilegt hefði verið að fá fyrir þetta þing tillögur um frambúðarskipulag. En jeg verð að viðurkenna ástæður meiri hl. bankanefndarinnar, að ekki sje tiltækilegt að koma fram með fullnaðartillögur eins og á stendur. Jeg tek því ekki þátt í ásökunum út af þessu, þó að jeg hinsvegar játi, að því fyr, sem fullnaðarskipulag kemst á í þessum málum, því betra.

Það hefir verið mikið látið af, hve óhentug tilhögun væri á þessu sviði. Jeg held samt, að hv. 1. landsk. hafi gert fullmikið úr því, hve háir væru vextir af veðdeildarlánum. Jeg tók svo eftir, að hann segði, að þeir væru hærri en útlánsvextir Landsbankans; en jeg held, að það fari eitthvað á milli mála. (SE: Jú, miklu hærri). Jeg ætla nú samt að halda hinu fram, þar til jeg hefi endurskoðað þá útreikninga. Hvað vextir eru háir, stafar auðvitað af því, hve vextir hafa verið háir yfirleitt undanfarin ár. Það þarf ekki að stafa neitt af tilhögun stofnunarinnar. — Jeg held, að ekki verði bætt úr á sviði fasteignalánanna með breyting á fyrirkomulaginu, meðan bygt er á innlendum peningamarkaði. Það mundi víst ekki seljast mikið meira innanlands, þó að önnur tilhögun væri tekin upp. Ef gera á breytingu, verður að stíga það spor, að lánsstofnunin geti dregið að sjer erlent fje. Jeg játa, að núverandi tilliögun er ekki vel fallin til þess.

Jeg skal geta þess, að jeg bað fjhn. að athuga milli 2. og 3. umr., hvort hún gæti sjeð nokkurt ráð til þess að afla útlends markaðs. En á því munu vera miklir örðugleikar, einkum vegna óvissunnar um gengi peninganna. Það varð því ofan á, að fjhn. sá sjer ekki fært að gera neinar ráðstafanir til þess að koma brjefunum á útlendan markað. Það er auðvitað, að ef brjefin væru boðin út nú, yrði talsverð áhætta fyrir annaðhvort lánveitanda eða lántakanda, eftir því í hvaða átt gengið breytist, og það gæti valdið talsverðum erfiðleikum. — Það er viðurkent af öllum, að sú ráðstöfun, sem hjer er stofnað til, er aðeins til bráðabirgða. Það er á valdi þings og stjórnar, hve lengi verður unað við það bráðabirgðafyrirkomulag. Lögin kveða svo á, að hægt sje að loka þessum veðdeildarflokkum þegar henta þykir.