13.03.1926
Efri deild: 27. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1029 í B-deild Alþingistíðinda. (543)

20. mál, bankavaxtabréf

Jónas Jónsson:

Það eru aðeins fáein orð út af ræðu hv. 1. landsk. (SE). Við höfum nú tekið fram ýmislegt viðkomandi þessu máli við 1. umr., en þó eru ýms smáatriði, sem 1 . þm. (SE) virðist ekki hafa skilið þá. Það voru víst mismæli hjá hv. þm., en bentu þó í ákveðna átt, þegar hann kallaði bankanefndina Landsbankanefnd. Það bendir á, hve hv. þm. er rík í huga niðurstaða sú, sem nefndin komst að. En aðalaðfinslur þær, sem hann beinir til okkar út af veðdeildarfrumvarpinu, eru af því, að við tökum fram, að óhjákvæmilega verði að líða nokkur ár þar til hægt verði að koma á viðunandi framtíðarskipulagi um veðlán. Af því, sem jeg skrifaði í nál., getur hv. þm. (SE) sjeð, hvað fyrir mjer vakir í þessu máli. Jeg lít svo á, að við eigum eftir að finna okkur fyrirkomulag og getum ekki í þessu efni haft sömu tilhögun og aðrar þjóðir. Jeg er alveg samdóma hv. 1. landsk., að hvorki ræktunarsjóðurinn nje fyrirkomulag veðdeildarinnar geti verið frambúðarskipulag. En það er margbúið að taka fram, að vegna óvissu um gengi ísl. krónunnar er ekki hægt að gera fast skipulag að svo komnu. Til þess að það sje hægt, verðum við að fá ósvikna peninga, þ. e. peninga, sem eru innleysanlegir með gulli og ekki breyta verðgildi sínu frá degi til dags.

Jeg bygði mitt álit í nál. á því, að nokkur ár sje sá minsti reynslutími, sem við getum komist af með. Það er út frá þessari óhjákvæmilegu staðreynd, að jeg sje ekki til neins að berja höfðinu í steininn. Peningar okkar eru sviknir. Það er ekki neisti af von um það, að hægt sje að selja á erlendum markaði íslensk vaxtabrjef nema því aðeins, að þau sjeu miðuð við útlenda mynt. En það hefir aftur svo mikla ágalla, eins og hv. 1. landsk. hlýtur að sjá, að jeg held, að enginn geti hallast að því, eimnitt vegna óvissunnar um íslenska krónu.

Ef hv. l. landsk. tekst — og það getur honum tekist talsvert, bæði sem þingmanni en ekki síst sem bankastjóra, — að vinna að því, að við fáum aftur verðfasta peninga, þá hefir hann leyst vandasamasta hnútinn. Og þegar það er búið, þá mun ekki standa á mjer, verði jeg fulltrúi á Alþingi, að vilja finna framtíðarskipulag á fasteignalánum, sem miðað væri við okkar þarfir.