13.03.1926
Efri deild: 27. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1031 í B-deild Alþingistíðinda. (544)

20. mál, bankavaxtabréf

Sigurður Eggerz:

Jeg hefi í raun og veru ekki mjög miklu að svara. Hæstv. fjrh. sagði lítið um ræktunarsjóðinn, en ummæli hans undirstrikuðu skýrlega staðhæfingar mínar um, að verksvið hans væri takmarkað. Sú yfirlýsing er nægileg fyrir landbúnaðinn. Sjóðurinn fullnægir honum ekki.

Jeg vil aðeins víkja enn að því, að til þess að forstaðan fyrir fasteignalánsstofnun geti verið örugg, þarf að sameina fasteignalánastarfsemina sem mest, svo að ráð verði á því að greiða kostnað við stjórn stofnunarinnar. Jeg get skilið, að þegar um jafnlitla peningastofnun og ræktunarsjóðinn er að ræða, hafi fjrh. vaxið það í augum að setja bankastjóra við hann, sem hefði stjórn stofnunarinnar sem aðalstarf. Jeg veit, að forstjóri ræktunarsjóðsins er góður og ábyggilegur maður, og eftir minni þekkingu mun óhætt að trúa honum fyrir starfi sínu. En það er í rauninni ósamrýmanlegt, að sameina margþætta málfærslustarfsemi við forstöðu fasteignalánastofnunar.

Jeg vil leyfa mjer að vekja eftirtekt. hv. deildar á því, að jafnvel hæstv. fjrh. (JÞ) varð alveg hissa, þegar jeg sagði honum, hvernig lánin væru úr veðdeildinni, sem sje, að ef maður tekur lán til 20 ára, þá er sú „effektiva“ renta af því 7.80, sú renta, sem kemur fram, þegar maður jafnar afföllum niður á vextina allan tímann. En útlánsvextir Landsbankans eru 7%. Fasteignalán til 20 ára eru með hærri „effektivum“ vöxtum en víxillán í Landsbankanum. Í þessum tölum liggur sá þungi áfellisdómur yfir þessu fyrirkomulagi á fasteignalánunum.

Hæstv. fjrh. kvaðst leyfa sjer að efast um, að útreikningar þessir væru rjettir. En þeir eru gerðir af færasta manni, sem hægt er að fá á þessu landi, dr. Ólafi Dan, og hann mun standa við sína útreikninga.

Jeg geri ráð fyrir, að jeg, með því að leggja fram þessar tölur, hafi sýnt fram á með rökum, að það þolir enga bið, að þessum málum verði komið í annað horf. Óneitanlega eru fasteignalánin venjulega ódýrari en önnur lán. Er því alveg óskiljanlegt, að þau þurfi að vera dýrari hjer á landi en stutt lán.

Það, sem jeg átaldi meiri hluta bankamálanefndarinnar fyrir, var það, að hann sem hlýtur að þekkja þörfina í sveitunum fyrir ódýr lán, og einnig í bæjum á hentugum lánum til húsa, hann skyldi með köldu blóði leggja það til, að bíða með úrlausn þessa máls um ófyrirsjáanlegan tíma. Og mig furðar, þegar jeg heyri hæstv. fjrh. fallast á þetta. Því að jeg sá ekki annað en að hann bæri fullkomlega blak af nefndinni. Jeg skal samt ekki trúa, að hæstv. forsrh. (JM) líti svo á þetta mál. Hann er búinn að vera hjer búsettur það lengi, að hann hlýtur að skilja, hvað lánsþörfin er mikil og lítið til að bæta úr henni.

Það getur vel verið, að hæstv. stjórn brosi meðan jeg er að skýra frá þessu hjer í hv. deild, en það eru menn hjer fyrir utan þingsali, sem þurfa að byggja, sem ekki brosa að þessum hlutum.

Þar sem hv. 3. landsk. (JJ) var að tala um, að ekki væri hægt að útvega erlendan markað fyrir þessi brjef vegna gengisins, þá vil jeg víkja enn að því, sem jeg sagði við I. umræðu, að það er ómögulegt að segja um það, hvenær þau mál komast í rjett horf. En það er líka ómögulegt að stöðva starfsemina í landinu þangað til fullkomið jafnvægi fæst. Hvað sem er gert, bygð bryggja í Borgarnesi, lagður vegarspotti, — alstaðar grípur gengisspursmálið inn í. Lífið þolir ekki kyrstöðu; það verður að ganga sinn gang. Menn verða að útvega markaðinn þrátt fyrir gengisbreytingu.

Hv. 3. landsk. spurði, hvort jeg byggist við, að okkar króna yrði búin að ná gullgengi eftir þrjú ár. Nei, sannarlega býst jeg ekki við því. En annars er ekki á neins færi að spara spursmálum eins og þessu, því úrlausn þeirra er bundin við svo mörg atriði, sem enginn ræður yfir.

Jeg vil enn víkja að því sem jeg tók fram við l. umræðum, að þau mál, sem lögð hafa verið fyrir þetta þing, eru yfirleitt mjög ómerkileg, þau ómerkilegustu, sem jeg hefi sjeð, og þess vegna væri það mjög hamingjudrjúgt, ef þessu þingi tækist nú að ráða fram úr bankamálunum, svo þingið markaði eitt ærlegt spor. En það er sagt, að í stjórnarflokknum sje hver höndin upp á móti annari, bæði í þessu og öðrum stórmálum. Það er vissulega mjög hörmulegt, að sá flokkur, sem á að bera ábyrgð á landinu, skuli hafa slíka aðstöðu í stórmálunum. Jeg vil mjög gjarnan auka friðinn á þessu þingi og bendi nú þeim tilmælum til hæstv. forsrh., sem jeg treysti best af stjórninni, að hann beini nú landsstjórninni inn á rjetta braut í þessu máli. Og ef þetta er gert, þá mun hæstv. stjórn standa fastari fótum en nú. En jeg hygg þeir fari nú brátt að bila, ef hún reynir ekki að gera eitthvað af viti í stórmálunum.