13.03.1926
Efri deild: 27. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1034 í B-deild Alþingistíðinda. (545)

20. mál, bankavaxtabréf

Forsætisráðherra (JM):

Jeg get ekki vel viðurkent, að það sje sjerstök ástæða til að fara út í stórpólitík út af þessu veðdeildarfrv. Það sýnist mjer dálítið óskylt málinu. Það var búið að ræða eitthvað svipað við 1. umræðu, og þetta því sennilega að miklu leyti endurtekningar.

Jeg var ekki inni, þegar hv. 1. landsk. (SE) var að tala um þessa háu vexti af veðdeildarbrjefunum og að ríkisveðbankinn væri sá rjetti grundvöllur undir fasteignalánum. Hvað snertir háa vexti af veðdeildarbrjefunum vil jeg segja það, að þeir hafa verið svipaðir frá því snemma á árinu 1922 þangað til snemma 1924. Og þá voru til lög um ríkisveðbanka, og þurfti ekki annað en að skipa mann og koma honum af stað. Ef það því er tómlæti af þessari stjórn að koma ekki ríkisveðbanka á fót, þá var það tómlæti af þeirri stjórn, sem þá fór með mál landsins, að koma honum ekki á á þeim tíma. Nei, mjer finst ekki full ástæða fyrir hv. l. landsk. að álasa stjórninni fjarska mikið fyrir að hafa ekki tekið þá aðstöðu að stofna ríkisveðbanka.

Að öðru leyti er jeg ekki vanur að ræða mikið um þau mál, sem sjerstaklega heyra undir aðra ráðherra. Við hv. 1. landsk. höfum líka dálítið aðra skoðun um það, hver afskifti forsætisráðherra, sem líka er fagráðherra, eigi að hafa af störfum hinna fagráðherranna.

Annars held jeg, að hæstv. fjrh. hafi svarað öllu nægilega. Hv. l. landsk. hefir heldur ekki heimtingu á neinum svörum um þessi mál undir þessum umræðum.

Það er engin ástæða til að draga seðlabankann inn í þetta mál. En mjer þykir skiljanlegt, að hv. 1. landsk. vilji sýna sína fjármálavisku í tíma og ótíma. Jeg verð að segja, að hún er varla svo mikil hjá mjer, að jeg þori að fara inn á hans lærðu kenningar.