13.03.1926
Efri deild: 27. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1035 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

20. mál, bankavaxtabréf

0546Jónas Jónsson:

Jeg tók af ásettu ráði ekki nema eitt atriði úr ræðu hv. 7. landsk. (SE) til skýringar, af því hinu hafði verið meira og minna svarað við 1. umr. Jeg vjek þá meðal annars að aðstöðu Íslandsbanka. Jeg hverf ekki frá því, að það hafi fyr og síðar sýnt sig, að þeir, sem voru vinir Íslandsbanka, hafi haft miklar mætur á seðlaútgáfunni fyrir þann banka eins lengi og þess var kostur. Og sú geðbreyting, sem hv. 1. landsk. komst í við 1. umr., stóð óneitanlega í sambandi við þetta atriði, missi seðlaútgáfunnar.

Hv. þm. hefir nú svarað mjer hreint og ljóst út af því, sem er aðalatriðið, en það er gengismálið. Hann játaði, að ekki væri líkur til, að við verðum búnir að fá innleysanlega krónu eftir 3 ár. En þá um leið er hv. þm. búinn að fá fullkomið svar við því, hvers vegna við í bankanefndinni gátum ekki annað en gert ráð fyrir millibilsástandi.

Jeg er þakklátur hv. þm. fyrir, að hann hefir látið okkar ágæta reikningsmann reikna út ókjörin á veðdeildarbrjefunum. Jeg vil, að það sje öllum lýðum ljóst, hvað við eigum erfiða aðstöðu. Mig langar sannarlega ekki að verða til þess, viljandi eða óviljandi, að þetta ástand verði lengur en hægt er að komast hjá. En lausnin liggur ekki í seðlamálinu nje í veðdeildarmálinu, heldur í gengismálinu. Og einmitt hv. 1. landsk., bæði sem þingmaður og bankastjóri, getur haft mikil áhrif á það, ef honum er það áhugamál að koma peningamálunum í fast horf.

Hv. þm. hefir játað það — eins og allir skynsamir menn hljóta að játa, — að ef við treystum útlendum markaði með okkar fasteignalán, þá er ekki til neins annað en viðurkenna, hvaða áhrif okkar sviknu peningar hafa í því efni. Þeir eru sú sterka ástæða fyrir því, að við getum ekki í bili komið þessum málum í fast horf.

Jeg held jeg verði að benda á það aftur sem jeg mintist á við 1. umræðu, að í löndum, sem hafa gengið gegnum hörmungar svikinna peninga, eins og Finnland, var myntlögunum breytt og komið á fót gullinnlausn. Peningunum hefir verið haldið föstum þar í 3 ár, áður en byrjað var á innlausn. Þá breyttist þetta eins og af töfrakrafti. Mjer var sagt í Finnlandi, að þeir hefðu aðeins beðið eftir breytingu á myntlögunum og gullinnlausn, áður en þeir færu að selja vaxtabrjef sín á markaði stjórn landanna. Meðan sviknir peningar voru í Finnlandi, voru vextir 12–14%.

Mjer finst undarlegt, að svo skýr maður sem hv. 1. landsk. er skuli ekki sjá, að lausn þessa máls liggur í öðru máli, sem er á ferð í þinginu. Hann getur ekki með nokkrum rjetti áfelt okkur í milliþinganefndinni, þótt við tækjum tillit til þess, að okkar peningar væru í ólagi. Við höfum peninga, sem ekki eru peningar, og hv. þm. játaði, að það myndi taka mörg ár að fá rjettgilda peninga.

Við getum búið til eins mörg lög og vera skal um ríkisveðbanka, veðdeildir og ræktunarsjóði, eða hvað sem er, en meðan við höfum svikna peninga, þá getum við ekki selt neitt sem heitir af þessum vaxtabrjefum á erlendan markað. Þess vegna verðum við allir að sameinast um það að fá peninga, sem eru peningar, og taka það mál rjettum tökum.