13.03.1926
Efri deild: 27. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (548)

20. mál, bankavaxtabréf

Forsætisráðherra (JM):

Var það ekki satt, sem jeg sagði, að hv. 1. landsk. (SE) hafi lært betur bankamál síðan 1922? Og hví skyldi hann þá ekki láta nú ljós sitt skína?

Eftir því, sem honum fórust orð um ráðin í stjórninni á þeim tíma, sem hann var forsætisráðherra, þá er svo að heyra, að fjármálaráðherrann hafi haft nokkuð mikið að segja. Að minsta kosti er svo að skilja, að hv. 1. landsk. hafi ekki ráðið því vegna fjármálaráðherra síns að stofna ríkisveðbankann.

Annars vil jeg segja honum það, að þetta út af fyrir sig er ekkert einsdæmi. Því síðan á stríðsárunum hefir það verið svo í öllum löndum, að fjármálaráðherrann hefir verið sá, er einna mest hefir þótt vera undir komið. Og hefir þetta verið oft sagt annarsstaðar. Nú hefir það viljað svo vel til, að síðustu tvö árin höfum við Íslendingar átt því láni að fagna að eiga þann mann í fjármálaráðherrasætinu, sem hægt er að treysta, og þjóðin líka treystir. Hann hefir því ráðið miklu, og það eðlilega, um viðreisn fjárhagsins. Það hefir farið svo í þessum síðustu tveimur ráðuneytum, að fjármálaráðherrarnir hafa ráðið miklu, eins og vera ber. (SE: Ekki í minni stjórnartíð). Ja, hv. 1. landsk. hefir nýlega sagt, hvers vegna ríkisveðbankinn hafi ekki verið stofnaður, og jeg tel ekki nema rjett af þáverandi forsrh. (SE) að beygja sig fyrir fjármálaráðherranum þá.

Annars veit jeg ekki, hvers vegna hv. l. landsk. fór að ávarpa mig. Jú, jeg brosti. en það var ekki af því, sem hann sagði, heldur af alt öðru. Jeg hefi ekki sagt, að hv. 3. landsk. sje stjórnarhneigður, enda mun hv. 1. landsk. það kunnugt, að stjórnin muni eiga þar lítils trausts að vænta.