15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1044 í B-deild Alþingistíðinda. (556)

20. mál, bankavaxtabréf

Jakob Möller:

Það er aðeins vegna þess, að jeg skrifaði undir nál. með fyrirvara, að jeg segi hjer örfá orð, sem jeg að vísu geri ekki ráð fyrir, að þurfi að lengja umr. mikið. Jeg vildi aðeins láta þess getið, að jeg skoða þessa ráðstöfun aðeins til bráðabirgða. Því að jeg tel ekki fasteignalánum komið í það horf, sem þarf, fyr en komin er á fót sjerstök stofnun, er hafi þau með höndum, eða þau eru a. m. k. rekin af sjerstakri bankastjórn. Annars get jeg fallist á, að það sje rjett að gefa Landsbankanum til bráðabirgða leyfi til þess að gefa út nýjan flokk veðdeildar, til þess að bæta úr þeirri þörf, sem nú er fyrir hendi um veðlán. Því að ef frv. um Ríkisbanka verður ekki samþykt, þá er ekki hægt að ætlast til þess, að veðbankinn verði bráðlega stofnaður.