29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1050 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

70. mál, veiting ríkisborgararéttar

Bernhard Stefánsson:

Jeg á brtt. við þetta frv. á þskj. 242. Hún fer fram á það, að þriðja manninum sje veittur ríkisborgararjettur, Laurits Kristiansen í Krossanesi. Þessi maður sendi umsókn um ríkisborgararjett til dómsmálaráðherrans í hitteðfyrra, en jeg varð ekki var við, að þessi málaleitun kæmi þá fyrir þingið. En í fyrra var hann einn af þeim, sem hæstv. stjórn lagði með, að fengju ríkisborgararjett, og hafði allshn. skjölin til athugunar. En hann fjekk aldrei svar, því mál hans var ekki borið undir þingið. Jeg ber þessa till. fram nú til þess að maðurinn fái svar, hvernig sem það verður. Því fremur geri jeg það, sem jeg sje enga ástæðu á móti því, að honum verði veittur ríkisborgararjettur. Hann hefir verið búsettur hjer síðan 1912 og er kvæntur íslenskri konu, og jeg skal geta þess, að henni er mikið áhugamál, að honum sje veittur íslenskur ríkisborgararjettur. Hann er mjög vinsæll í sinni sveit, sem sjá má af því, að hlutaðeigandi hreppsnefndhreppsnefndin í Glæsibæjarhreppi — hefir mælt með þessu og sömuleiðis hlutaðeigandi yfirvald, sýslumaðurinn í Eyjafjarðarsýslu. Um kunnáttu hans í íslenskri tungu liggur ekkert vottorð fyrir, en jeg hefi talað við hann og get vottað það, að hann skilur íslensku til hlítar, en á erfitt með að tala hana svo vel sje, en jeg hygg, að svo sje einnig um marga aðra útlendinga, sem fengið hafa ríkisborgararjett, að þeir tali ekki sem best íslensku. Allshn. hefir nú haft skjöl þessa máls til athugunar, og jeg vænti nú að fá að heyra álit hennar. Jeg sendi henni málið og baðst þess, að hún tæki afstöðu til þess, en hún hefir ekki gert það og sagðist ekki gera það fyr en bein tillaga lægi fyrir. Jeg býst nú við, að nefndin hafi átt kost á að kynna sjer brtt. mína og hafi því nú tekið afstöðu, og væri þá gott að fá að heyra hana. Sömuleiðis vildi jeg gjarnan fá að heyra, hvort hæstv. dómsmálaráðherra hefir nokkuð við þetta að athuga.